Með nýju ári endurfæðast manneskjur. Ný ég og ný þú. Nú er tími nýrra markmiða sem umbreyta lífinu til hins betra: Hreyfa sig meira. Missa nokkur kíló. Vera besta útgáfan af sjálfri sér. Læra eitthvað nýtt. Leggja fyrir í ferðasjóð. Eyða meiri tíma með vinum og fjölskyldu. Búa til fjölskyldumyndaalbúm. Drekka minna.
Eina vandamálið er að einungis 8% af áramótaheitum verða að veruleika. Til hvers þá að setja sér markmið ef það eru 92% líkur á að mislukkast? Er maður eitthvað að fara að grennast ef maður er alltaf að hugsa um mat? Minnka drykkjuna ef manni þykir sopinn góður?
Vísindamenn segja galdurinn á bak við árangur vera meðal annars að virkja ímyndunaraflið, sem er eins konar auga hugans. Þegar þú sérð eitthvað fyrir þér virkjast sömu stöðvar í heilanum sem raunveruleiki væri. Það er, hugurinn ber þig hálfa leið. Hér er ég ekki að tala um fantasíu um frægð og frama eða færri kíló, heldur að sjá fyrir sér leiðina að markmiðinu. Hugurinn sér þó ekki allar hindranir. Því þarftu líka að vera tilbúin að mæta vandamálum sem undantekningarlaust munu skjóta upp kollinum – og leggja þig fram við að leysa þau.
Síðan er auga hugans nátengt sálarlífinu því þegar við ímyndum okkur vakna tilfinningar sem virkja ósjálfráða taugakerfið ásamt svæði í heilanum sem tengist líðan. Sem dæmi ef þú sérð fyrir þér ógnandi atburð er líklegt að hjartsláttur og öndun aukist, líkt og atburðurinn væri fyrir framan augun þín. Og ef þú sérð fyrir þér langþráðan draum gætir þú upplifað sælu.
Þannig að, þegar við horfum fram á veginn skiptir máli að beina auga hugans að einni vörðu í einu, vitandi að leiðin sem þú tekur getur verið torfær á köflum. Jafnframt að markið er handan við hæðina.