Áður en mér datt í hug að ég myndi nokkurn tímann klæða mig í leður­þveng með frænda mínum og garga eitt­hvað um hrun og dauða í sjón­varps­mynda­vélar Evrópu­búa tók ég þátt í nokkuð merki­legri kosningu. Mér var bjart­sýni í huga. Hvorki hatur né tor­tíming mann­kyns. Þetta var 2012 og ég ný­kominn með kosninga­rétt og meira að segja búinn að nýta hann á sögu­legri stundu.

Ég var einn af 115.890 manns sem settu X við vel valda reiti og niður­stöðurnar ráð­lögðu vald­höfum eitt­hvað á þessa leið:

„Hey, auð­vitað maður! Ég vil að öll at­kvæði séu jöfn, að fólkið sem býr hérna eigi auð­lindir náttúrunnar og beri á­byrgð á þeim og bara, díses, að við setjum okkur nú­tíma­lega stjórnar­skrá! Þetta á ekki að vera spurning!“

Fyrr losnar systir mín við spangirnar

Svona hugsaði á­tján ára ég. Og meiri­hluti hinna sem mættu. Þetta væri engin spurning, þótt það væri vissu­lega mikil­vægt að vera spurð. En svo átti þetta eftir að verða spurning sem tekur meira en átta ár og þrjár ríkis­stjórnir að svara. Ég á litla systur sem var varla byrjuð í grunn­skóla þegar við kusum og í næstu viku losnar hún við spangirnar. Ein­hvern tímann þess á milli var Bret­landi troðið út úr Evrópu­sam­bandinu í krafti ráð­gefandi þjóðar­at­kvæða­greiðslu. Svona eins og þjóðar­at­kvæða­greiðslan sem ég kaus í þegar ég var á­tján ára var ráð­gefandi. Niður­stöðum hennar er ekki troðið í gegn heldur eru þær þynntar út á Al­þingi.

Eins og síróp­s­kaffi í plast­bolla með G-mjólk

Til dæmis vil ég auð­linda­á­kvæði í stjórnar­skrá eins og ég vil kaffi. Svart og sykur­laust. Þannig er það í nýju stjórnar­skránni: Auð­lindir eru skil­greindar, eignar­réttur þjóðarinnar er af­dráttar­laus og ó­aftur­kallan­legur og skýrt tekið fram að nýtingar­rétturinn er að­eins til stutts hóf­legs tíma í senn. Auð­linda­á­kvæðið sem er núna í sam­ráðs­gátt er svona eins og tveggja daga gamalt síróp­s­kaffi í plast­bolla með G-mjólk. Ef þú tekur oddinn af orða­laginu þá fer bragðið og þá geturðu allt eins sleppt þessu. Auð­vitað kaus þjóðin ný­malað kaffi. Það sést á því að auð­linda­á­kvæðið var vin­sælasta á­kvæðið í nýju stjórnar­skránni.

Lesið endi­lega nýja auð­linda­á­kvæðið við tæki­færi, svona til upp­rifjunar. Og plaggið í heild þegar þið hafið tíma. Það er ekki bara skýrt heldur fal­legt. Ef það væri lykt af því væri það ilmur af ný­möluðu kaffi.

Takk, elsku stað­reynda­bjarg­vættir!

Nú segjast ýmsir vera varð­hundar stað­reyndanna og ætla að halda utan um þær til að fyrir­byggja ó­reiðu með glæ­nýrri vef­síðu. Það er flott hjá þeim. Maður fær það á til­finninguna að þegar mörg­þúsund manns gera eðli­lega en há­væra kröfu um lýð­ræði hljóti sér­stök vef­síða G-mjólkur­sinna að vera hálf­mátt­laust varnar­bragð. Það er ekki stað­reynd, bara til­finning. Þegar ég skoða stað­reyndirnar eru mér hvorki hatur né tor­tíming mann­kyns í huga heldur bjart­sýni.

Ég þekki ekki stað­reyndirnar betur en stað­reynda­bjarg­vættirnir á netinu en ég get ekki annað en þakkað þeim kær­lega fyrir. Takk, elsku stað­reynda­bjarg­vættir! Nú finnum við betur en nokkru sinni að krafan um nýja stjórnar­skrá er að virka, hún heyrist, hún er skýr og hún er fal­leg. Þetta á ekki að vera spurning heldur stað­reynd.