Ekki alls fyrir löngu hitti ég mann sem breytti á ákveðinn hátt sýn minni á lífið. Ég og þessi maður erum fædd sama ár og ég man vel eftir honum í gegnum tíðina. Hann er heimilislaus og háður vímuefnum. Ég bý í fínni íbúð í miðbænum og er ekki háð vímuefnum.

Hann sagði mér frá því hvernig alkóhólismi, vímuefni og heimilisleysi urðu með tíð og tíma stærri og stærri þættir í lífi hans. Þessir þættir gera líf okkar tveggja ótrúlega ólík. Hann upplifir að ekki sé á hann hlustað, fólk hræðist hann, fáir heilsa honum eða gefa sig á tal við hann og hann er ekki velkominn hvar sem er. Ég upplifi þetta ekki eins og hann.

Í einu samtali okkar sagði hann mér að hann hefði aldrei hitt neinn sem hefði stefnt að því verða háður vímuefnum, allir vinir hans sem eru háðir vímuefnum og hann sjálfur vildu óska þess að þau væru það ekki. Þetta er þáttur sem maður gleymir að leiða hugann að, það er svo auðvelt að dæma og hræðast það sem er manni ekki nærri.

Hörður Hákon Jónsson er einn fárra á Íslandi sem eru í skömmtunarmeðferð vegna morfínfíknar. Hann segir á einlægan hátt frá mikilvægi þess að hann fái lyfin sín og frá þeim fordómum sem hann hefur fundið fyrir. Lesum með opinn huga.