Þar sem ég ligg hér á sundlaugarbakkanum á Tene, horfi ég á Bretana allt í kringum mig. Þeim finnst greinilega gaman að ferðast til sömu staða og ég. Þessir sem hér umlykja mig, falla að staðalímyndinni. Þriðjungur þeirra er hættulega sólbrenndur, helmingurinn er sköllóttur og allir eru þeir með húðflúr á tilviljanakenndum stöðum líkamans. Þar sem þeir liggja hér með ístruna út í loftið, velti ég því fyrir mér hvernig þeir skyldu hugsa um okkur Íslendingana. Hvernig vissi gaurinn sem reyndi að lokka okkur inn á veitingastaðinn sinn í vikunni, að við værum Íslendingar? Hann var löngu byrjaður að hlaða í íslenska frasa áður en við komum upp orði. „Gott kvöld, Iceland. Æjafjagglajokul“ hrópaði hann og bauð okkur ókeypis fordrykk.

Úti á götu þekkjumst við reyndar af öllum H&M pokunum, nú eða vegna þess að við köllum götuna alltaf „Laugaveginn“. Svo skiljum við líka börnin okkar eftir í kerrum fyrir utan verslanirnar. Á ströndinni fara kríthvítir fótleggirnir ekki framhjá neinum. Eins og endurskinsmerki, veltumst við um í flæðarmálinu.

Á barnum þekkjumst við af dónaskapnum. Við segjum aldrei „please“ enda er íslenska útgáfa orðsins ekki til. Á veitingastöðunum þekkjumst við af öllum sósunum sem við biðjum um. Ef ekki þess vegna þá vegna þess að við pöntum okkur of marga rétti og skiljum helminginn eftir. Í samskiptum þekkjumst við af samanburði okkar við önnur lönd, sem ratar inn í öll okkar samtöl. Svo segjum við líka heilu setningarnar á innsoginu. Útlendingar kunna það ekki.

Loks erum við eina þjóðin í heiminum sem grillar í snjó, en það vita Bretarnir kannski ekki.