Sláandi var frá­sögn Ríkis­út­varpsins af nýs­ettum lögum um landa­kaup. Þar sagði meðal annars: „Veiga­mestu breytingarnar, en jafn­framt þær um­deildustu, felast í að land­búnaðar­ráð­herra fær heimild til að setja hömlur á jarða­kaup. Þannig getur fast­eigna­kaupandi ekki eignast land ef hann eða tengdir aðilar eiga fyrir land sem er saman­lagt 10 þúsund hektarar að stærð nema með sér­stakri undan­þágu frá ráð­herra.“ Það er vissu­lega rétt að auð­menn sem vilja kaupa upp allt land á stórum svæðum, nánast lands­hluta, vilja engar hömlur, jafn­vel þær sem eru að­eins að formi til, það er líka rétt að ó­svífnustu og stór­tækustu braskararnir tefla fram mála­liðum sem segja af og frá að stjórnar­skrá Ís­lands eigi að gilda en í 72. grein hennar segir að „með lögum má tak­marka rétt er­lendra aðila til að eiga fast­eigna­réttindi … hér á landi.“

Undanhald

Ríkis­stjórn og Al­þingi höfðu því miður ekki dug í sér til að standa á þessum rétti okkar, hvað þá láta reyna á þá túlkun stjórn­laga­sér­fræðinga að EES samningurinn taki ekki til landa­kaupa, enda hefði fjár­magns­flæði yfir landa­mæri (frjálst flæði fjár­magns) jafnan átt að skoðast í ljósi sam­spils við aðra þætti „fjór­frelsisins“, það er hvort það þjónaði mark­miðum hins innri markaðar um frelsi til fólksf lutninga, stað­festu­réttar og við­skipta með vörur og þjónustu. Þarna er um að ræða undan­hald frá markaðri stefnu, sem birtist í reglu­gerð og laga­frum­varpi frá þá­verandi ríkis­stjórn, árið 2013. Þar var sett sem skil­yrði fyrir eign á landi (um­fram spildu undir bú­stað) að kaupandi væri ís­lenskur ríkis­borgari og að aldrei mætti fram­selja eignar­hald á landi út fyrir land­steinana þannig að vatns- og veiði­réttindi fylgdu.

Hvers vegna ekki allt land?

Það já­kvæða við nýs­ett lög er að nú skal gerð gang­skör að skráningu landar­eigna og jafn­framt fengið sam­þykki fyrir aðila­skiptum. En viti menn, því að­eins er slíkt skylt að menn eigi fyrir fimm lög­býli eða fleiri, eða saman­lagt 1.500 hektara lands. Hvers vegna þessi mörk í ljósi þess að einu skil­yrðin fyrir leyfis­veitingu á þessu stigi eru að farið sé að lögum og reglum sem gilda um skipu­lag og nýtingu á landi? Að öðru leyti er leyfis­veitingin forms­at­riði. Hvað varðar þær tak­markanir á landa­kaupum sem Ríkis­út­varpið vitnaði til, þá koma þær fyrst til sögunnar eigi við­komandi 10 þúsund hektara fyrir. Það er í­gildi tíu Skál­holts­jarða, eða 20 til 30 á­gætra land­búnaðar­jarða í Eyja­firði eða á Suður­landi. Nú er hins vegar vitað að menn á borð við auð­manninn Ratclif­fe eiga þegar miklu meira land en þessu nemur. Yrði hann stöðvaður með þessum lögum? Það væri hægt enda skal það „að jafnaði“ gert, eins og segir í laga­textanum.

Eignaraðall og landsetar

Vandinn er hins vegar sá að þegar rýnt er í lögin kemur í ljós að það sem James þessi Ratclif­fe segist vera að gera, það er að halda landi í byggð, verja laxa­stofna í sam­ráði við inn­lendar stofnanir, fara að skipu­lags­á­kvæðum, þá verður lík­legra en ekki að honum og hans líkum yrði veitt undan­þága þrátt fyrir á­kvæði um höfnun „að jafnaði“. Er það þá ekki bara besta mál að auð­mennirnir á norð­austur­horninu, í Fljótunum og Tungunum eignist Ís­land: Að byggðunum, laxinum, vatninu og orku­gjöfunum verði best borgið í þeirra höndum? Það þykir ekki tíu þúsund manns sem undir­rituðu kröfur um hið gagn­stæða sem for­svars­konan fyrir söfnuninni, Jóna Ims­land, af­henti nú ný­lega for­sætis­ráð­herra við tak­markaða at­hygli fjöl­miðla, með undan­tekningum þó.

Vilja ekki þjóðfélag húsbænda og hjúa

Þetta fólk vill ekki að Ís­land verði land auð­manna og leigu­liða þeirra. Þetta fólk vill að af­dráttar­laust bann verði sett við eigna­söfnun á landi, miklum mun þrengra en undan­þágu­á­kvæðið leyfir, að lög­gjafinn taki fram fyrir hendur á fram­kvæmda­valdinu með af­gerandi hætti þannig að pólitískir stundar­hags­munir ráði aldrei för! Ríkis­út­varpið var í hópi þeirra f jöl­miðla sem sý ndu þessar i söfnun undir­skrifta ekki hinn minnsta á­huga. Þeim mun meira hefur frétta­stofan þar á bæ horft til þess sem peninga­mennirnir, annað hvort þeir sjálfir eða keyptir að­stoðar­menn þeirra, segja. Þá verður líka skiljan­leg til­vísun í þau „um­deildu“ á­kvæði sem ekki falla að hags­munum auð­manna. Þúsundir undir­skrifta teljast ekki með þegar skil­greint er hvað teljist um­deilt í hinum nýju lögum. Svo ein­falt er það. Eða kannski ekki.

Hver verða næstu skref?

Látum ríkis­stjórn og Al­þingi njóta vafans. Myndi ríkis­stjórnin vera svo væn að upp­lýsa okkur um hvort fyrir­huguð séu frekari skref á næstunni? Varla er þessu máli lokið, lands­menn varla svo lítil­þægir. Alla vega var okkur sagt að stöðva ætti eigna­söfnun í landi á af­gerandi hátt. Hve­nær verður það gert? Hver verða næstu skref?