Öll vitum við að aurarnir breyta fáu varðandi sálina. Þannig að ef að kjáni kemst í álnir breytist ekkert nema að hann verður ríkur kjáni. Eins breytist fátt þó einhver heimskinginn eignist Lamborgh­ini, annað en það að hann verður heimskingi á góðum bíl. Hinsvegar geta ferðalög breytt manni þó ekki sé loku fyrir það skotið að nokkrir hrokagikkir komi heim jafn hrokafullir og þeir fóru.

Aftur á móti, vilji menn fyrir alvöru ávaxta sitt andlega pund, er best að snúa sér að tungumálinu. Til að útskýra slíkt ríkidæmi vitna ég í Harold Bloom bókmenntafræðing sem sagði eitthvað á þá leið að við þurfum minni til þess að getað hugsað. Og ef minnið samanstendur af eintómri meðalmennsku, kjaftæði af kránni og í besta falli niðursoðnum spakmælum af fasbókinni, þá er hætt við því að hugsunin verði ekki heillavænleg.

Tungumálið tryggir okkur aðgang að öllu því fegursta sem Íslendingar hafa hugsað frá örófi alda. Og að þessu hefur þú óheftan aðgang fyrir það eitt að þú kannt íslensku. Sá sjóður hjálpar okkur að byggja heimsmynd og staðsetja sjálf okkur haganlega innan hennar. Leyfðu mér að bregða upp broti úr ljóði Þorsteins frá Hamri til glöggvunar:

Mér er í mun að setja heiminn saman / það lukkast aðeins stund og stund / Ég raða upp í augna minna ljós / mörgu sem ég minnist / mörgu sem bezt ég hugði samið og sagt /… / Stend um hríð hljóður við vegbrúnina / minningasafnari/ grunsmiður skelfinga / vonasonur / Og á sem snöggvast / fáa að

Við erum jú fá en heppin að eiga svona fólk að.