Fyrir hartnær tveimur árum voru fá teikn á lofti um nýskráningar fyrirtækja í Kauphöllina. Umræðan var fremur á þann veg að einhver þeirra kynnu, meðal annars vegna lítillar veltu og fárra skoðanaskipta milli ólíkra fjárfesta, að sjá hag sínum betur borgið með afskráningu. Lífeyrissjóðirnir sýndu markaðinum lítinn áhuga á meðan efnameiri fjárfestar voru að stórum hluta enn á hliðarlínunni, almenningur fráhverfur hlutabréfaviðskiptum, verðbréfasjóðum fór fækkandi og erlendir sjóðir voru byrjaðir að leita að útgöngu. Afleiðingin var grunnur markaður með ýktum sveiflum í litlum viðskiptum og forsendur að baki öflugum hlutabréfamarkaði tæpast fyrir hendi.

Í dag er staðan gjörbreytt. Tvær stórar skráningar á einum mánuði – fyrst Síldarvinnslan og núna Íslandsbanki – ásamt vel heppnuðu útboði Icelandair síðasta haust hafa hleypt gríðarmiklu lífi í markaðinn, einkum með endurkomu almennra fjárfesta, og útlit fyrir að framhald verði á því þegar Play fer í Kauphöllina. Því ber að fagna en Ísland hefur verið eftirbátur nágrannaríkja þegar kemur að beinni hlutabréfaþátttöku heimilanna. Lágvaxtaumhverfið, sem ýtir fjármagni yfir í áhættusamari eignir, hefur þar mest áhrif og nú eru sömuleiðis skýr merki um að erlendir vísitölusjóðir séu farnir að fjárfesta hér á landi eftir að Ísland var tekið inn í vaxtamarkaðsvísitölu MSCI. Aðkoma fleiri og fjölbreyttari fjárfesta mun auka skoðanaskipti og skilvirkni og gera það eftirsóknarverðara fyrir fyrirtæki að fjármagna sig á hlutabréfamarkaði.

Niðurstaðan í útboði Íslandsbanka markar af þeim sökum þáttaskil. Helstu markmið ríkisins með sölunni– gott verð, mikil þátttaka almennings og dreift eignarhald – náðust en heildareftirspurn var 486 milljarðar og umframeftirspurn eftir bréfum níföld. Stærstu tíðindin, sem ættu að hafa langvarandi áhrif á markaðinn, felast í því að hluthafar bankans eftir útboðið verða um 24 þúsund, mesti fjöldi hluthafa allra fyrirtækja í Kauphöllinni. Fjöldinn sem tók þátt var talsvert meiri en allir þeir einstaklingar sem áttu skráð hlutabréf í lok maí.

Ekkert af því sem úrtölufólkið hélt fram um söluferlið, sem var eins vitlaust þá og nú þegar niðurstaða útboðsins liggur fyrir, stóðst skoðun.

Litið til baka hefur málflutningur þeirra sem andmæltu sölu á Íslandsbanka elst illa. Í byrjun árs, þegar ljóst var að til stæði að selja hluta af bréfum ríkissjóðs, voru áformin gagnrýnd af þingmönnum í stjórnarandstöðu, einkum Samfylkingunni, og sérfræðingum verkalýðshreyfingarinnar sem töldu óheppilegt að selja bankann á „undirverði“ í djúpri efnahagslægð. Í viðtali við Fréttablaðið í gær sagði fjármálaráðherra réttilega þetta vera „þarfa áminningu um að það þurfi stefnufestu til að ljúka svona málum. Það verða alltaf einhverjar úrtöluraddir og sumir hanga á hliðarlínunni, bíða eftir að eitthvað fari úrskeiðis og reyna að telja úr mönnum kjarkinn.“ Undir það skal tekið.

Ekkert af því sem úrtölufólkið hélt fram um söluferlið, sem var eins vitlaust þá og nú þegar niðurstaða útboðsins liggur fyrir, stóðst skoðun. Vel á þriðja tug þúsunda fjárfesta sýndu með fjöldaþátttöku sinni að þeir gáfu einnig lítið fyrir holan málflutning þessa hóps. Eftir að hafa siglt sölu og skráningu Íslandsbanka farsællega í höfn hefur ríkisstjórnin, einkum Sjálfstæðisflokkurinn, styrkt stöðu sína í aðdraganda kosninga.