Allar líkur eru á því að þegar yfir­standandi kjör­tíma­bil kemst á enda sitji þjóðin uppi með átta töpuð ár. Engar raun­veru­legar um­bætur hafi orðið í sam­fé­laginu, al­menningi til hags­bóta. Allt sitji við það sama.

Kyrr­stöðu­stjórnin sem nú situr að völdum hefur öðlast það heiti af eigin verk­leysi. Hún er sett saman af þremur í­halds­sömum stjórn­mála­flokkum sem líta á það sem eitt af sínum megin­verk­efnum í ís­lenskri pólitík að gera engar stór­vægi­legar breytingar á helstu kerfum og stoðum þjóð­ríkisins. Miklu heldur hefur það verið helsta hlut­verk hennar að standa vörð um ó­breytt á­stand – og gæta sér­stak­lega að því að fjár­munirnir sem myndast hér á landi fari í réttar hendur og haldist þar.

Auð­vitað er þetta rauna­leg lýsing á ríkis­stjórn sem komst til valda eftir ein­stak­lega mikið um­rót í stjórn­málum á sínum tíma – og fékk starfs­frið í fyrstu til að koma á tíma­bærri festu í lands­stjórninni. Sá pólitíski ó­mögu­leiki varð að veru­leika að mynda þver­pólitíska stjórn frá vinstri og yfir miðjuna til hægri – og haft var á orði á þeim tíma að hér væri komin ein­hvers konar þjóð­stjórn eftir margra ára stjórn­mála­ófrið.

Það varð svo helsta lán þessarar undar­legu lands­stjórnar, eftir að hveiti­brauðs­dagarnir voru að baki, að hún gat af­hent völd sín með á­berandi hætti til vísinda­sam­fé­lagsins þegar heims­far­aldurinn reið yfir með öllum sínum ó­sköpum. Og það var ein­mitt klókt hjá vald­höfunum að víkja til hliðar á þeim tíma til að fela eigið erindis­leysi í ís­lenskri pólitík.

Eftir síðustu al­þingis­kosningar hélt stjórnin velli. Eina á­stæðan fyrir því að for­kólfar hennar af­réðu að halda sam­starfinu á­fram var að þeir gátu það. Til­gangur þeirra var sá eini að halda á­fram völdum með það að mark­miði að breyta engu.

Og það verður vand­lega gert.

Þegar átta töpuð ár verða að baki munu engar breytingar hafa verið gerðar á fisk­veiði­stjórnar­kerfinu þar sem ís­lenskum ó­lí­görkum er leyft að maka krókinn svo of­boðs­lega á kostnað al­mennings að í reyndinni er sjávar­auð­lindin orðin að erfða­góssi. Því síður verða nokkrar breytingar gerðar á al­ger­lega stöðnuðu land­búnaðar­kerfi sem heldur bændum landsins í fá­tæktar­gildru. Krónan mun á­fram kvelja heimili og at­vinnu­líf með sínum heima­smíðuðu breyti­legu vöxtum – og ungt fólk skal á­fram greiða fjórum sinnum fyrir í­búðir sínar allt til ævi­loka.

Átta töpuð ár. Og kannski tólf. En það er langur tími.