Í norðanverðum Þingholtunum í Reykjavík er að finna tvær jafn breiðar götur, önnur heitir Ingólfsstræti, hin Hallveigarstígur. Og munar hér allnokkru á nafngiftunum, stræti og stígur.

Saga jafnréttisbaráttunnar á Íslandi er þessu marki brennd. Þar hafa konur verið stígar en karlar stræti. Öldum saman.

Auðvitað hefur miðað áleiðis í þessum efnum á síðustu áratugum – og má hartnær fullyrða að kvennafrídagurinn 1975 hafi markað þar þáttaskil með þeim ánægjulegu tíðindum, fimm árum síðar, að landsmenn kusu sér kvenmann á forsetastól, fyrst lýðræðisþjóða.

Og nú heyrast þau tíðindi úr ráðstefnuhöllinni Hörpu að Ísland tróni á toppnum í leiðtogajafnrétti í heiminum. Og raunar gott betur, því þaðan bárust þau skilaboð í gær að Ísland skeri sig úr í þessum málaflokki sem framsæknasta landið á sviði viðhorfa til leiðtogajafnréttis.

Samkvæmt könnuninni sem þessar fullyrðingar byggjast á er Ísland með vísitölugildið 92 af 100 mögulegum í jafnréttismálum og mælist 10 stigum á undan næstframsæknustu löndunum í þessum efnum, sem eru Spánn og Bretland sem bæði eru með 82 stig.

Þetta er ánægjuleg þróun – og vel að merkja, henni hefur undið fram sakir mikillar baráttu um áratugaskeið sem oft og tíðum hefur kostað forsmánun og svívirðilegar athugasemdir í garð þeirra sem héldu fánanum hæst á lofti.

Fyrir baráttu þeirra ber að þakka. Og fyrir fórnfýsina á ævinlega að þakka.

En það eru átta prósentin. Hvort á maður fremur að gleðjast yfir 92 prósentunum eða pirra sig yfir átta prósentunum? Jú, því síðarnefnda. Þau bitna enn á konum, enn á samfélaginu.

Við getum glaðst yfir 92 prósentunum. En það er ekkert gleðilegt við átta prósentin.