Ég starfa í dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun þar sem við leggjum áherslu á að þjálfa félagslega, líkamlega og vitsmunalega færni ásamt því að létta undir með aðstandendum.

Félagsleg þjálfun felst í því að hitta annað fólk, það er ekki flóknara en það. Það er algengt að fólk með heilabilunarsjúkdóma einangrist, vinirnir hætta að koma í heimsókn eða hringja, vita ekki hvað þeir eiga að segja eða gera, halda jafnvel að viðkomandi muni ekki eftir heimsókninni. Þó að atburður gleymist fljótt, þá gleymist ekki tilfinningin sem hann vakti, það er því ómetanlegt að vekja gleði og vellíðan því þá verður dagurinn áfram góður. Haldið áfram að heimsækja og hringja í vini ykkar og fjölskyldumeðlimi, þó að þið þurfið að segja þrisvar að þið voruð í sumarbústað um síðustu helgi, skiptir það einhverju máli? Er ekki gott að eiga gæðastund með góðum vini? Þeim finnst það allavega.

Líkamleg þjálfun felst meðal annars í gönguferðum. Það er svo einstaklingsbundið hvort gangan er löng, stutt eða bara á milli bekkja. Það má horfa á fuglana, blómin eða jafnvel telja rauða bíla. Hreyfingin og samveran getur gert daginn góðan. Hefur þú lausa stund til að bjóða vini í göngutúr?

Vitsmunaleg þjálfun er afar fjölbreytt. Að gera eitthvað nýtt er best af öllu. Krossgátur hætta að vera góð heilaleikfimi þegar þú ert farin að fylla þær inn á sjálfstýringu. Í Yatzy og pílukasti þarftu að reikna út stigin, Olsen Olsen og vist láta þig hugsa og gamli góði Matador lætur mann aldeilis reyna á heilann. Tónlist kveikir á huganum líka og með því að spjalla um textana, höfundana og söngvarana á milli laga ertu að nota heilann vel. Endurminningavinna er góð, rifja upp fermingardaginn, brúðkaupsdaginn, að vera sendur í sveit, böllin á Röðli, það er margt hægt að rifja upp. Ljóða- og bókalestur, þar sem er spjallað um það sem verið er að lesa, er góður. Það eru til ótal spurningaspil, það þarf ekki endilega að vera í þeim í keppni, heldur samvinnu. Ég er viss um að eitthvað af því sem hér er upp talið væri góð afþreying fyrir þig og vin.

Með því að halda virku sambandi við vini þína og fjölskyldumeðlimi sem fá heilabilun, getur þú verið virkur þátttakandi í þjálfuninni sem þeir þurfa á að halda til að hægja á sjúkdómnum, viðhalda færni sinni og eiga góða daga. Líðandi stund skiptir mestu máli og við þurfum að muna að tilfinningin gleymist ekki þó að atburðurinn geri það.