Kjörsókn í alþingiskosningum hér á landi er yfirleitt með ágætum. Fólk mætir á kjörstað vegna þess að það hefur trú á lýðræðinu og finnst atkvæði sitt skipta máli. Kjósandinn hefur heldur enga ástæðu til að ætla annað en að rétt og heiðarlega sé að kosningum staðið. Af hyggjuviti sínu þykir honum víst að flokkar fái þingmenn í samræmi við fylgi sitt. Enda væri annað mjög einkennilegt og í litlu samræmi við lýðræðið.

Stöku sinnum er lífið samt einkennilegt og það sem venjulega er talið sjálfsagt og eðlilegt er látið víkja. Það á við hér á landi þegar kemur að fylgi í kosningum og þingmannafjölda. Hinn skemmtilegi og geðþekki Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, vakti athygli á því á dögunum að núverandi kosningakerfi tryggir ekki samræmi milli atkvæðamagns og þingsæta.

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Oddný Harðardóttir, benti síðan á það að í síðustu kosningum hefði Samfylkingin fengið meira fylgi en Framsóknarflokkurinn en samt fengið færri þingmenn. Meira að segja hörðustu andstæðingar Samfylkingarinnar hljóta að viðurkenna óréttlætið sem í þessu felst. Eftir næstu kosningar mun einhver flokkurinn vera í svipuðum sporum og Samfylkingin á sínum tíma. Annar flokkur, í sömu sporum og Framsóknarflokkurinn var, mun síðan græða óverðskuldað og styrkja stöðu sína.

Vegna þessa ósamræmis getur stjórnmálaflokkur sem sagt staðið með pálmann í höndunum af því hann fékk í kosningum fleiri þingmenn en hann átti skilið miðað við fylgi flokksins á landsvísu. Þetta gæti meira að segja skilað flokknum í ríkisstjórn.

Viðbrögð fjölmargra kjósenda hljóta að vera að þarna sé á ferðinni þvílíkt svindl og svínarí að ekki verði við unað. Þarna er greinilega þörf á leiðréttingu. Væri allt með felldu hefði hún reyndar þegar átt sér stað.

Stjórnmálamenn virðast æði oft þurfa lengri tíma en almúginn til að átta sig á hlutum og bregðast við. Stundum er eins og þeir starfi á hraða snigilsins. Breytingar á kosningakerfinu voru ræddar á þingi í vor, en formaður þingflokks Vinstri grænna, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, lét nýlega hafa eftir sér að meiri umræðu hefði verið þörf áður en breytingar væru gerðar á kosningalögum um atkvæðavægi.

Mikið óskaplega virðist vera erfitt fyrir þingmenn að bregðast skjótt við þegar þörf er á. Ef kosningakerfi tryggir ekki samræmi milli atkvæða og þingsæta þarf að leiðrétta það snarlega. Um það á ekki að þurfa maraþonumræður. Segja má ansi margt og koma fjölmörgu til skila í stuttu og hnitmiðuðu máli. Ef þingmenn áttuðu sig á þessum sannindum myndu þeir koma svo miklu fleiru í verk en þeir gera.

Nú má vel vera að einstaka stjórnmálaflokkar sjái sér beinlínis hag í því að viðhalda þessu óréttláta kerfi því í kosningum geti það úthlutað þeim meira en réttlátt er miðað við atkvæðamagn. Meðan svo er standa þessir sömu flokkar staðfastlega vörð um ólýðræðislegt kosningakerfi. Spillt hugarfar, myndi einhver segja.

Það hlýtur að vera kominn tími til að rísa upp gegn þessu óréttlæti.