Langt er um liðið frá því Landnámssetrið í Borgarnesi sló í gegn í hugum og hjörtum ferðamanna.

Nú er í bígerð að gera Latabæjarsafn í Borgarnesi, sem efalítið mun trekkja túristana enn frekar í plássið. Magnús Scheving sjálfur hefur puttana í því og mun það allt verða hið glæsilegasta.

Og ef allt er þegar þrennt er þá er auðvitað upplagt að fara að leggja drög að Atkvæðasetrinu í bænum, safni um einhverja raunalegustu talningu í alþingiskosningum á Íslandi, en hver vill ekki fá að láta loka sig inni í fangaklefanum, sjá seðlana, handleika þá og fá að endurtelja sjálfur, svindla kannski smávegis og stinga C-seðli í D-bunkann.

Myndi þetta ekki heita gagnvirk sýning?

Tími Ögmundar

Tími Ögmundar er kominn – og má ekki seinna vera. Það tók Jónasson ekki nema fjögur ár að átta sig á því að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn eiga ekki heima í sömu stjórninni – og megi fyrir vikið heita svik við kjósendur beggja flokka.

Sjaldan hefur reynslubolti í stjórnmálageiranum gefið sér jafn langan tíma í eina og sömu ályktunina, en vel ígrunduð hlýtur hún alltént að vera.