Laugardaginn 16. júlí birtist í Fréttablaðinu grein eftir Mevlüt Çavuşoğlu sem hefur verið utanríkisráðherra Tyrklands undanfarin sjö ár. Hann er nánasti samstarfsmaður Erdogans, forseta Tyrklands, og því í innsta hring stjórnarelítunnar í því landi. Þar var reynd bylting fyrir réttum sex árum sem tókst ekki og síðan hefur Erdogan byggt upp einræðisríki þar sem mannréttindum og lýðræði hefur verið ýtt til hliðar að verulegu leyti. Ástand mannréttindamála í Tyrklandi verður að teljast mjög ábótavant sem lesa má í fréttum fjölmiðla sem og á internetinu.

Grein utanríkisráðherrans nefnist: „Hryðjuverkastarfsemi ekki háð þjóðerni eða trú“ og er birt á mjög áberandi stað í Fréttablaðinu síðastliðinn laugardag. Það verður að segja sem er að greinin er rituð á nokkuð góðri íslensku þannig að utanríkisráðherrann hefur notið góðrar aðstoðar einhvers huldumanns voð að koma hugsunum sínum til skila á okkar tungumáli. Íslenskan hefur reynst mörgum útlendingum býsna erfið að ná góðum tökum á. Fróðlegt væri að vita betur um þennan þátt og hvaða aðili hafi komið þar við sögu.

Utanríkisráðherra Tyrklands er 54 ára að aldri, sagður vera vel menntaður sem sótti sína menntun til BNA þar sem hann lauk námi við Long Island-háskólann í New York. Um hríð starfaði hann í Evrópuráðinu þar sem hann gegndi um hríð mjög háttsettu embætti. Sjá nánar: https://en.wikipedia.org//wiki/Mevlüt_Çavuşoğlu

Í grein tyrkneska utanríkisráðherrans er sitthvað býsna einkennilegt og jafnvel undarlegt þar sem margt er fullyrt sem ekki er alveg sannleikanum samkvæmt. Þannig er reynt að færa rök fyrir og réttlæta þjóðarmorð á Kúrdum. Stórfelldar herferðir á hendur þeim hafa tyrknesk yfirvöld komist upp með frá upphafi 20. aldar sem ekki virðast taka neinn enda. Kúrdar eru stærsta þjóðarbrotið innan landamæra Tyrklands og eru þeir taldir vera um 20% ríkisborgara landsins. Þeir eru þekktir fyrir að vera baráttuglaðir og láta ekki sinn hlut auðveldlega eftir. En þeir eru réttsýnir og hafa oft sýnt frumkvæði sem vafist hefur fyrir öðrum, samanber þátt þeirra í að steypa einræðisherranum Saddam Hussein af stóli í Írak á sínum tíma.

Hér er eitt sýnishorn úr grein utanríkisráðherrans þar sem hann víkur að byltingartilrauninni 2016 í Tyrklandi: „Hefði valdaránstilraunin tekist væri Tyrkland gerólíkt því sem nú er. Lýðræði hefði þá heyrt sögunni til og grundvallarmannréttindi hefðu verið afnumin um óákveðinn tíma. Þjóðin hefði fallið í hendur ríkisstjórnar öfgamanna.“

Þarna er ýmsu snúið við. Lýðræði og mannréttindi voru bókstaflega strikuð út eftir að þessi misheppnaða bylting misheppnaðist. Varð tilefnið fyrir stjórn Erdogans að þrengja verulega að mannréttindum flestra landsmanna. Embættismenn eins og dómarar og kennarar sem stjórnin treysti ekki voru flæmdir burt úr störfum sínum, þúsundir handteknar og innleidd var ógnarstjórn sem enn virðist vera í landinu. Er þetta skilningur vel menntaðs embættismanns sem skrifar í íslenskan fjölmiðil um framkvæmd lýðræðis í sínu heimalandi?

Ég virði rétt utanríkisráðherra Tyrklands að setja fram skoðanir sínar, jafnvel í íslenskum fjölmiðli. En ég leyfi mér jafnframt að hafa þann rétt að fordæma þessi umdeildu sjónarmið hans enda eru þau byggð meira og minna á augljósum blekkingum og til að afvegaleiða sannleikann sér í hag.