Í gær, 16. nóvember á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar, var degi íslenskrar tungu fagnað. Opinbert markmið með deginum er að beina athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar og gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

Árlegur tyllidagur með fögrum fyrirheitum gerir þó ósköp lítið í stóra samhenginu. Ef einhver meining er á bak við upphaflega markmiðið um að skoða stöðu tungunnar þyrftu þeir sem með valdið fara í þessum efnum að líta við í grunnskólum landsins.

Þá er ég ekki að tala um undirbúna heimsókn í íslenskutíma þar sem afburðanemendur lesa ljóð eftir eitthvert höfuðskáldanna eða annað í þeim dúr heldur einfaldlega að prófa að tala við krakkana, og kannski enn frekar; hlusta á þau tala hvert við annað.

Staðreyndin er nefnilega sú að allt niður í yngsta stig grunnskóla má heyra börn tala saman á ensku. Börn með íslensku að móðurmáli sem fengið hafa enskukunnáttu sína mestmegnis af YouTube.

Fyrir átta árum var Íslenskuþorpið stofnað til að efla íslenskukennslu fyrir nemendur með íslensku sem annað mál. Þorpið er nú orðið að tilraunaverkefni tveggja grunnskóla með það að leiðarljósi að auka samskipti á íslensku í skólum. Þetta þarfa og góða verkefni kallast „Viltu tala íslensku við mig?“ og skilar vonandi árangri fyrir þann hóp sem það er miðað að. Ég væri þó ekki minna spennt fyrir átakinu „Viltu tala íslensku við vini þína?“ fyrir öll grunnskólabörn hér á landi.

Það er staðreynd að með aukinni snjallsíma-, spjaldtölvu- og samfélagsmiðlanotkun yngstu kynslóðarinnar er hún útsettari fyrir ensku en kynslóðirnar á undan. Íslensk börn eru í dag farin að geta bjargað sér og rúmlega það á ensku löngu áður en þau læra hana í skóla.

Ýmsar málfarsvillur eins og röng setningaröðun slæðist inn með enskunni og svo verður ekki hjá því litið að heilir hópar barna og unglinga eiga hreinlega sín samskipti á ensku. Þetta er ný þróun og hún er hröð – mikið hraðari en viðbrögð yfirvalda.

Ef einhver alvara er í því að vernda íslenskuna ríður á að nota ímyndunaraflið og leita skapandi leiða til að gera tungumálið spennandi fyrir ungviðið sem deilir lífi sínu á TikTok og Instagram.

Það er mikilvægt að tryggja framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi og að þróunin sé stöðug þegar kemur að tækni- og fagmáli. Í því samhengi má nefna verkefnið „Máltækni fyrir íslensku 2018 til 2022“, sem er ætlað að tryggja að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi gervigreindar og raddstýrðra tækja.

En við verðum að byrja mikið fyrr og við verðum að gera það strax.

Í gær fengu 70 grunnskólanemendur viðurkenningu fyrir lestur, sögur, ljóð og fleira. Algjörlega til fyrirmyndar – en ég legg til að hugmyndaauðgin verði virkjuð enn frekar fram að næsta degi íslenskrar tungu. Við vitum sem er, að fæst börn og unglingar liggja yfir ljóðakverum – því ekki að veita einnig verðlaun fyrir íslenskun á algengum slettum, þýðingu á erlendum rapptexta eða handrit að tölvuleik á íslensku?

Tuð og leiðréttingar kveikja ekki ástríðuna fyrir varðveislu okkar ástkæra ylhýra – það veit ég af biturri reynslu – við þurfum að gera það töff að tala íslensku!