Af þeim þúsundum brotaþola kynferðisofbeldis sem leitað hafa til Stígamóta, frá stofnun samtakanna árið 1990, voru 70% undir 18 ára aldri þegar þau voru fyrst beitt ofbeldinu. Oft var gerandinn á svipuðum aldri, en samkvæmt gögnum Stígamóta eru u.þ.b. 60% gerenda á aldrinum 14-29 ára. Þrátt fyrir að svo stór hluti brotaþola hafi verið á barnsaldri fengu fæst þessara barna aðstoð fagaðila vegna ofbeldisins á sínum tíma. Aðeins örlítil prósenta þessara barna höfðu sagt starfsmanni skólans eða barnaverndar frá ofbeldinu. Fæst þeirra hafa raunar rætt um reynslu sína við nokkurn áður en þau leita sem fullorðið fólk til Stígamóta – oft árum, jafnvel áratugum eftir kynferðisbrotið. Þessi staðreynd er þyngri en tárum taki þegar litið er til þess að lífshættulegustu afleiðingar kynferðisofbeldis - á borð við sjálfsvígshugleiðingar, misnotkun vímuefna og átraskanir, eru talsvert líklegri hjá brotaþolum á barnsaldri en meðal þeirra sem verða fyrir brotinu á fullorðinsárum. Til mikils er því að vinna með að grípa þetta unga fólk sem allra fyrst og aðstoða það í átt að betri líðan.

Sjúkt spjall

Í dag er stærsti hópurinn sem leitar til Stígamóta ungar konur á aldrinum 18-25 ára. Því má þó

fagna að brotaþolar leiti til okkar fyrr en áður, í stað þess að sitja árum saman einangruð í þögn og skömm. Í mars síðastliðinn opnuðu Stígamót nýja þjónustu, Sjúkt spjall, sem er nafnlaust netspjall 13-20 ára ungmenna við ráðgjafa. Í gegnum fræðslu- og forvarnaverkefni Stígamóta hefur á síðustu árum orðið ljóst að þörf var á lágþröskuldaþjónustu fyrir ungmenni þar sem þau gætu rætt ofbeldisreynslu sína í trúnaði. Á annað hundrað ungmenni alls staðar af landinu hafa haft samband við netspjallið og mörg lýst grófu andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Fæst þessara ungmenna hafa rætt upplifun sína við nokkurn fullorðinn áður en þau leita á Sjúkt spjall eftir ráðgjöf og fræðslu. Úr þessum samtölum fást loks útskýringar á því af hverju ungir brotaþolar eru svo hikandi við að leita aðstoðar í sínu nærumhverfi en koma frekar inn á nafnlaust netspjall. Skýringar þeirra má flokka í fernt:

Hvernig gat ég látið þetta gerast, mér var kennt betur!”

1) Algengustu tilfinningar brotaþola í kjölfar kynferðisofbeldis eru skömm og sektarkennd. Þessa sáru en eðlilegu hugsanavillu reynum við að leiðrétta í samtölum við ungmennin (sem og í ráðgjöf til fullorðinna brotaþola á Stígamótum) í von um að hinn ungi brotaþoli treysti sér frekar til að leita til nærumhverfis síns þegar ljóst er orðið að skömmin og sektin er alfarið gerandans. Í samtölum sem gjarnan byrja á: „Ég get ekki sagt neinum frá, mér finnst þetta allt vera mér að kenna,” en enda blessunarlega á: „Takk fyrir að útskýra og gefa mér annað sjónarhorn, mér líður miklu betur núna.“

„Mér þykir svo vænt um hann og vona alltaf að hann muni breytast.“

2) Í langflestum frásögnum á unglingaspjallinu er ofbeldinu beitt af kærasta brotaþolans, en sár og flókin staðreynd varðandi kynferðisofbeldi er að oftast eiga brotaþoli og gerandi náin tengsl. Sú viðkvæma staða bæði torveldir brotaþola að skilgreina reynslu sína sem ofbeldi og flækir það að opinbera ofbeldismanninn með að segja öðrum frá. Meðalaldur þeirra sem leita inn á Sjúkt spjall er 16 ára og krakkar alveg niður í 13 ára gamlir lýsa þar reynslu sinni af grófu ofbeldi. Þrátt fyrir þennan unga aldur sjáum við vel þekkt og skýrt mynstur ofbeldissambanda í þessum samtölum – þar sem þolandinn t.d. upplifir sig ábyrgan fyrir hegðun gerandans, felur ofbeldið, efast um eigin upplifun eða hangir sífellt í voninni um að hegðunin breytist. Það nístir að sjá kornungar stelpur sem enn búa flestar í foreldrahúsum og lifa lífi barns skrifa: „Hann missir stundum stjórn á sér en hann er samt að gera sitt besta, hver myndi hjálpa honum ef ég hætti með honum? Ég er hætt að finna fyrir sorg þegar hann er vondur við mig, er eiginlega bara dofin. Svo skrýtið, ég hef ekkert til að vera föst við hann, ekki barn eða húsnæði en samt líður mér föst.“

„Var mér nauðgað?“

3) Ein algengasta spurningin sem kemur inn á unglingaspjallið er einhver útgáfa af: „Var mér nauðgað?“/„Er ég í ofbeldissambandi?“ svo ljóst er að mörg ungmenni eiga erfitt með að skilgreina kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, í það minnsta þegar um ræðir þeirra eigin reynslu. Þetta ítrekar þörfina á ítarlegri og sífelldri fræðslu um ofbeldi. Bæði til ungmenna sjálfra en ekki síður til t.d. foreldra, kennara og þjálfara, svo nánasta umhverfi barna og unglinga sé vel í stakk búið til að mæta þeirri staðreynd að sá aldurshópur er allra líklegastur til að verða fyrir (og beita) kynferðisofbeldi.

„Enginn myndi trúa mér.“

4) Loks óttast ungmennin viðbrögð umhverfisins ef þau segja frá ofbeldinu. Ótti við að gerandinn hefni sín eða þeim verði á einhvern hátt refsað fyrir að segja frá. Ótti við að valda foreldrum sínum sársauka, vonbrigðum og jafnvel fjárhagsvanda. Ótti við að vera ekki trúað, vera dæmd og kennt um ofbeldið, eða við að fá á sig stimpil: „Ég vil ekki að það eina sem fólk hugsar þegar það sér mig sé að mér var nauðgað“. Eflaust er óttinn við viðbrögð annarra í mörgum tilvikum órökréttur, en sum ungmennanna hafa í raun fengið slíkt viðmót við að segja frá ofbeldisreynslu sinni. Fræðslan um kynferðisofbeldi þarf nefnilega ekki síður að fjalla um nauðgunarmenningu, gerandameðvirkni og þolendaskömmun heldur en aðeins brotin sjálf.

Breytum þessu saman!

Á Sjúku spjalli fá ungir brotaþolar nauðsynleg svör við spurningum sínum, sem vonandi hvetur þau til að leita sér frekari aðstoðar í sínu nærumhverfi. Þetta trúnaðarsamtal getur þannig orðið fyrsta skrefið í að rjúfa einangrun og skila skömminni.

Kæra unga fólk – spjallið bíður ykkar á www.sjukast.is á mánudags-, þriðjudags- og miðvikudagskvöldum. Við hlustum, trúum og skiljum. Þið eruð alveg jafn velkomin á spjallið ef skaðlega hegðunin er ykkar eigin. Við viljum hjálpa en ekki dæma.

Kæru við fullorðnu sem mönnum þorpið í kringum hvert barn – þekkjum stöðuna því öll eigum við mikilvægt hlutverk í baráttunni. Ræðum opinskátt við ungmenni um sambönd, kynlíf, ofbeldi og klám. Kennum krökkunum okkar heilbrigð samskipti og verum þeim góðar fyrirmyndir. Verum öruggur faðmur að leita í.

Loks kæru valdhafar – Stígamót eiga fjármagn til að halda Sjúku spjalli opnu fram á næsta vor. Hjálpið okkur að gera þetta mikilvæga úrræði varanlegt.