Það eru aldrei góðar vikur þegar krossgátur síðustu helgar liggja óbættar hjá garði við lok viku. Það segir mér bara að ég hef ekki fundið mér tíma til að gera það sem mér þykir hvað skemmtilegast – að leika mér að orðum. Í mesta lagi hef ég kannski náð að gera í nokkrum skrafl-leikjum á netinu.

Ég þarf samt ekkert að kvarta. Líklegast hef ég verið of upptekin við að skrifa texta, reyna að meitla setningar og gera þær enn skýrari en í gær. Fjarlægja óþarfa kommur og hikorð sem ég sé svo auðveldlega hjá öðrum og nota svo sjálf án þess að hika. Allt í þeirri von að upplýsingarnar muni á einn að annan veg komast til þín.

Ást á orðum kemur ekki af sjálfu sér. Hana þarf að rækta eins og önnur ástarsambönd, með lestri og hlustun á alls konar texta. Það þarf að lesa vondan texta til að þekkja góðan. Það þarf að leyfa góðum orðasamböndum og myndlíkingum að leika við tunguna eins og gott rauðvín. Og þessu fylgir aðdáun á rithöfundunum sem ná að galdra fram texta sem hreyfir við sálinni og flytur okkur í tíma og rúmi.

Rithöfundarnir eru mín frægðarmenni. Ég get ekki sagt þér hvaða íþróttalið eru að berjast við titla en fylgist með þeim mun meiri áhuga með tilnefningum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Mig langar í allar bækurnar og dreymi ekki bara um bókajól, heldur jólabókaflóð – og 13. mánuðinn til að lesa þær allar. Njótum hátíðismánaðar íslenskra bóka og gleðilegt flóð.