Hversu lengi er hægt að hafa áhrif á fólk með því að endurtaka sífellt sömu skilaboðin? Þessari spurningu veltu þau David Attenborough og Greta Thunberg fyrir sér í spjalli í lok síðasta árs. Þetta er stóra áskorunin í tengslum við loftslagsmálin. Eftir því sem fólk heyrir sama málflutninginn endurtekinn aftur og aftur þeim mun minni verða áhrifin.

Mögulega eru einhverjar slíkar skýringar að baki niðurstöðum Umhverfiskönnunar Gallup 2020 sem kynntar voru nýverið. Tveir af hverjum þremur telur að ástæða hækkunar á hitastigi jarðar sé mengun af mannavöldum en í desember 2018 voru þrír af hverjum fjórum á þeirri skoðun. Þeim sem telja hlýnunina meira vera vegna náttúrulegra breytinga fjölgar úr rúmum 14 prósentum í rúm 23 prósent. Þá fjölgar þeim mikið sem telja fréttaflutning af alvarleika hlýnunar jarðar almennt ýktan.

Í könnun sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið síðastliðið sumar töldu næstum níu af hverjum tíu að loftslagsbreytingar af mannavöldum væru staðreynd. Einu hóparnir þar sem finna mátti efasemdir um það voru kjósendur Miðflokksins og Flokks fólksins. Skilaboð vísindasamfélagsins hafa lengi verið skýr og allur vafi um orsakir hlýnunar jarðar ætti að vera löngu horfinn. Niðurstöður Umhverfiskönnunarinnar eru áminning um það að við megum ekki sofna á verðinum heldur halda baráttunni áfram.

Það er þó líka jákvæð teikn að finna í þessari viðamiklu könnun. Langflestir flokka sorp, hafa minnkað notkun plasts og einnota umbúða og dregið úr matarsóun. Þá fjölgar þeim sem segjast hafa dregið úr neyslu og fjölda flugferða. Allt skiptir þetta máli en samt sem áður er helsta ástæða þess að fólk gerir ekki meira sú að því finnst það hafa lítil áhrif. Annað sem fólk nefnir er ónógur stuðningur frá stjórnvöldum. Þar að auki eru um 60 prósent óánægð með viðleitni stjórnvalda til að draga úr gróðurhúsalofttegundum. Þótt ýmislegt hafi áunnist í baráttunni við loftslagsbreytingar getum við öll gert betur og eigum að gera það; stjórnvöld, almenningur og fyrirtæki.

Um daginn var liðið eitt ár frá því að íslensk ungmenni hófu vikuleg loftslagsmótmæli að fyrirmynd Gretu Thunberg. Á ársafmælinu var engan bilbug á unga fólkinu að finna heldur ríkti þar baráttuhugur. David Attenborough sagði Gretu að það væri ekki hægt að búast við því að sömu skilaboðin aftur og aftur haldi áfram að hafa sömu áhrif. Þess vegna þurfi að finna nýjar leiðir til að segja sömu hlutina og áður. Skilaboðin þurfi bara að vera enn háværari. Þess væri óskandi að þau heyrist nógu hátt til að jafnvel efasemdarfólk um vísindi og loftslagsbreytingar á Íslandi leggi við hlustir.