Á síðustu árum hafa málefni barna fengið aukið vægi og mörg mikilvæg skref verið stigin í þá átt að tryggja snemmtæka íhlutun. Eftir sem áður berast nánast daglega fréttir af löngum biðlistum, jafnvel til margra ára, eftir brýnni þjónustu við börn, og niðurstöður kannana og rannsókna sýna fram á hrakandi geðheilsu barna.

Ein meginforsenda þess að stefna um snemmtæka íhlutun nái fram að ganga er að hún byggi á styrkum stoðum stofnana, sem búa yfir fagfólki, þekkingu, innviðum og úrræðum, þannig að unnt sé að bregðast við sveigjanlegri og eftir atvikum aukinni þjónustuþörf hverju sinni. Setja þarf stefnu sem gerir þjónustuveitendum kleift að aðlaga þjónustuna að þörfum notenda, ólíkt því sem nú er, þar sem börn þurfa að sæta því að langir biðlistar eftir sérhæfðri þjónustu við þau, eru nánast án undantekninga. Það er óásættanlegt úrræðaleysi að börnum í leit að þjónustu sé vísað frá og sem veldur því að vandi þeirra vex og verður þannig erfiðari úrlausnar, þegar þau loks fá aðgang að þjónustu.

Ljóst er að staðan í geðheilbrigðismálum barna er grafalvarleg þrátt fyrir stefnuyfirlýsingar síðustu ríkisstjórnar um að efla geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum, tryggja fjármagn til að standa undir rekstri barna- og unglingageðdeildar Landspítalans og efla heilbrigðisþjónustu í framhaldsskólum, með áherslu á geðheilbrigði. Í Barnasáttmálanum er kveðið á um þá skyldu aðildarríkja að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að réttindi þau sem viðurkennd eru í sáttmálanum, komi til framkvæmda. Í síðustu tilmælum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, frá árinu 2011, kom fram að íslenska ríkið verði að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og tryggja aðgang þeirra að greiningum og meðferðum auk þess að huga að fleiri úrræðum eins og t.d. sálfræðimeðferð og fræðslu.

Umboðsmaður barna brýnir fyrir nýrri ríkisstjórn að gera geðheilbrigðismálum barna hátt undir höfði í nýjum stjórnarsáttmála og leggur áherslu á að hér nægir ekki velvilji, yfirlýsingar og fyrirheit, það er kominn tími til aðgerða.