Undanfarna viku höfum við skrifað 7 opin bréf til borgarráðs vegna fyrirhugaðrar styttingar opnunartíma leikskólanna. Fjöldi bréfa er tilkominn vegna þeirra margvíslegu og flóknu áhrifa sem möguleg breyting mun hafa á einstaklinga, samfélag og umhverfi í Reykjavík, en hægt er að nálgast þau öll á samantektarsíðunni www.studningskonurleikskolanna.wordpress.com.

- Við höfum lýst raunverulegum aðstæðum fólks og farið yfir hversu snúið það getur verið fyrir fjölskyldur að ná að sækja börn sín innan skerts tímaramma.

- Við höfum farið yfir hugmyndafræðileg áhrif breytinganna, þar sem líkur benda til þess að þær auki enn á samviskubit mæðra sem eru að reyna að standa undir karllægum væntingum atvinnulífsins og gera því ekki „það sem börnunum er fyrir bestu“. Í fjölmiðlum hefur einnig komið fram að Steinunn Gestsdóttir, prófessor í þroskasálfræði, kannast ekki við að rannsóknir hafi sýnt fram á að 8 tímar séu betri fyrir börnin en 8,5 tímar.

- Við höfum ítrekað farið yfir vanmatið sem virðist hafa átt sér stað á áhrifunum á konur og jaðarsett fólk, enda kemur fram í jafnréttisskimun tillögunnar að ekki liggi fyrir hvernig tillagan snerti stöðu kynjanna eða ákveðna þjóðfélagshópa og borgarfulltrúar meirihlutans hafa harðneitað því að kynjuð áhrif muni koma fram.

- Við höfum varað við forréttindablindu í ákvarðanatöku þar sem borgarfulltrúar og stjórnendur byggja á tölum og meðaltölum án greiningar á aðstæðum og reynsluheimi kvenna og jaðarsetts fólks.

- Við höfum gagnrýnt samráðsleysi við foreldra í Reykjavík og misvísandi ummæli formanns skóla- og frístundaráðs sem óskar eftir rannsóknum til að sannfærast um að konur beri meiri ábyrgð á heimilishaldi en karlar en lætur sér óformlega og innihaldslausa jafnréttisskimun nægja þegar kemur að eigin ákvörðunum.

- Við höfum farið yfir virðingarleysið gagnvart framlagi kvenna til samfélagsins, ólaunaðri vinnu kvenna inni á heimilum, illa launuðum störfum kvenna á leikskólum og óeigingjörnu framlagi kvennanna sem lögðu grunn að núverandi starfi leikskólanna í gegnum stjórnmál.

- Við höfum bent á þversögnina sem felst í því að borgaryfirvöld ætli að létta álagi af starfsfólki og börnum á leikskólum með styttri opnunartíma á sama tíma og ekkert virðist ganga í að semja um styttri vinnuviku við starfsfólk borgarinnar. Og það þrátt fyrir að tilraunaverkefni borgarinnar á undanförnum árum hafi sýnt fram á ótvíræða kosti styttri vinnuviku fyrir starfsfólk, atvinnurekendur og samfélagið allt.

- Við höfum bent á að styttri opnunartími geri foreldrum erfiðara fyrir að velja annan fararmáta en einkabílinn sem varla fer saman við allar þær stefnur sem fyrir liggja um fjölbreytta, skapandi, blómstrandi og græna borg og markmiðum um að hlutdeild bílferða verði komin í 58% árið 2030.

Þessu til viðbótar höfum við sent mannréttindaskrifstofu borgarinnar bréf þar sem við óskum eftir upplýsingum um úttekt á ábyrgðarskiptingu á heimilum, á efnahagslegum og heilsufarslegum áhrifum breytinganna á einstæðar mæður og jaðarsetta hópa og á þeim úrræðum sem fólk kann að grípa til vegna breytinganna.

Í dag mun borgarráð fjalla um ákvörðun skóla- og frístundaráðs. Við treystum því að kjörnir fulltrúar taki þau sjónarmið sem hér hafa verið kynnt til greina og að fundnar verði aðrar leiðir en þjónustuskerðing til að létta álagi af börnum og starfsfólki leikskóla í Reykjavík.

Stuðningskonur leikskólanna,

Claudia Overesch, Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir, Elísabet Ýr Atladóttir, Gunnhildur Finnsdóttir, Gunnur Vilborg, Halldóra Jónasdóttir, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, Hildur Björk Pálsdóttir, Hildur Ýr Ísberg, Kristjana Ásbjörnsdóttir, Ósk Gunnlaugsdóttir, Sóley Tómasdóttir, Sunna Símonardóttir, Unnur Ágústsdóttir, Þóra Kristín Þórsdóttir