Í ár eru 20 ár síðan Háskóli norðurslóða (UArctic) var formlega stofnaður í Rovaniemi í Finnlandi með það að markmiði að efla þekkingarsamfélög norðurslóða. Allir háskólar landsins eru aðilar að samtökunum og standa sameiginlega að hinni árlegu ráðstefnu UArctic 15.-18. maí. Ráðstefnan er liður í formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og hana sækja fræðimenn frá öllum ríkjum norðurslóðanna. Nemendum er gjaldfrjálst að sækja ráðstefnuna en vegna sóttvarnarráðstafana verður hún að mestu leyti rafræn.

Mikilvægi þess að efla sjálfbæra þróun og bæta umhverfis-, efnahags- og félagslegar aðstæður í samfélögum á norðurslóðum er ekki síður aðkallandi í dag en fyrir tuttugu árum. Verkefnin sem samfélög framtíðarinnar standa frammi fyrir eru krefjandi og kalla á framsýnar lausnir, öflugt alþjóðlegt samstarf og víðtæka þátttöku fræðasamfélagsins. Samvinna á grundvelli Háskóla norðurslóða endurspeglar sameiginlega hagsmuni þátttöku landanna í að efla vísindasamstarf og þróa vísindalega þekkingu um allt svæðið.

Norðurslóðir hafa fengið aukið vægi í alþjóðlegri umræðu undanfarin ár og tengist það ekki síst hraðfara hnattrænum umhverfisbreytingum og samfélagslegum áhrifum þeirra á svæðinu. Fræðimenn vara við þeim áhrifum sem hlýnandi loftslag á svæðinu hefur og mun hafa á viðkvæm vistkerfi norðurslóða bæði á landi og í sjó. Breyttar aðstæður leiða til aukinnar skipaumferðar og vaxandi sóknar í náttúruauðlindir á þessu viðkvæma svæði. Það er því mikilvægara en nokkru sinni að koma í veg fyrir neikvæð áhrif þessara breytinga og að tryggt verði að sjálfbærni verði höfð að leiðarljósi um nýtingu náttúruauðlinda. Í því samhengi er mikilvægt að huga að jafnvægi milli umhverfisþátta, félagslegra þátta og efnahagslegra þátta sem kallar á þverfræðilega nálgun í vísindum og rannsóknum. Efling alþjóðlegs samstarfs á sviði norðurslóðarannsókna og eftirlits auðveldar stjórnvöldum að taka ákvarðanir um hvernig bregðast skuli við þessum breytingum á náttúru og samfélagi.

Samfélögin á norðurslóðum eru mörg smá og afskekkt og víða skortir nauðsynlega innviði. Samfélögin eru heldur ekki einsleit, enda er það svæði sem telst til norðurslóða afar víðfeðmt. Grænar lausnir í skipulags- og orkumálum, lýðheilsa, jafnrétti, menntun og sjálfbær auðlindanýting eru brýn viðfangsefni samfélaga á norðurslóðum sem mikilvægt er að leysa í sameiningu.

Hagsmunir Íslands af hagfelldri þróun á svæðinu eru mjög miklir og því mikilvægt að rannsóknir og nám miði að því að leita úrlausna við öllum þessum fjölbreyttu áskorunum. Þær margvíslegu rannsóknir á málefnum norðurslóða sem byggst hafa upp í íslensku háskólasamfélagi eru auðlind sem mikilvægt er að nýta sem best. Lítið land þarf á öllu sínu góða fólki að halda og farsælt samstarf allra háskóla landsins því mikils virði. Við undirrituð erum stolt af góðu samstarfi háskólasamfélagsins við að undirbúa og skipuleggja vísindaráðstefnu UArctic á Íslandi 2021 sem skapað hefur góðan grundvöll fyrir öflugt samstarf til framtíðar.

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Erla Björk Örn­ólfs­dótt­ir, rektor Háskólans á Hólum, Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.