Á 17. og 18. öldinni urðu til borgasamfélög vesturlanda. Borgasamfélagið var ópersónulegra og grimmara en gamla sveitasamfélagið. Geðsjúkir og alls kyns utangarðsfólk áttu mun erfiðar uppdráttar í þéttbýlinu. Í upphafi 17. aldar spruttu upp stór hæli fyrir fólk sem var til vandræða í borgunum - undanfarar geðsjúkrahúsa sem venjulega voru reist fjarri mannabyggðum.

Á Íslandi var Kleppur ekki byggður fyrr en 1907 en sprengdi strax utan af sér húsnæðið. Mikill fjöldi fólks með geðsjúkdóma og/eða önnur vandamál fékk ekki pláss á stofnuninni og hýrðist heima við krappan kost eða lenti á flækingi. Menn tóku þá til bragðs að byggja stofnanir fyrir fólk í andlegum og félaglegum erfiðleikum. Ein slík var „þurfamannahælið“ Arnarholt. Þar ægði saman heimilislausum alkóhólistum, geðsjúkum, þroskaheftum og kynlegum kvistum úr borgarlífinu.

Nýlega birtust skýrslur um slæma meðferð vistmanna í Arnarholti. Mikil þrengsli og fjölskrúðugur vistmannahópur gerði það að verkum að árekstrar voru tíðir á stofnuninni. Arnarholt forðaði mörgum frá götunni og vetrarkuldanum á tímum takmarkaðrar félagsaðstoðar. Meðferðin bar þess þó skýr merki að menn töldu vistmennina vera utangarðs í samfélaginu.

Nú er búið að loka Arnarholti, Víðinesi, Gunnarsholti og Kumbaravogi og fleiri hælum en vandamálin eru söm við sig. Fjölmargir eru enn á götunni sem engin stofnun vill hýsa. Gistiskýlin í Reykjavík eru yfirfull á hverri nóttu. Borgin reynir ítrekað að búa þessu fólki mannsæmandi húsnæði en enginn vill hafa þessa einstaklinga í sínu nágrenni. Hvarvetna er mótmælt kröftuglega þegar byggja á íbúðir fyrir heimilis- og vegalausa. Vilja menn kannski að Arnarholt verði opnað aftur?