Ljóst er að heilbrigðiskerfi heimsins standa frammi fyrir fjölda áskorana, meðal annars aukinni eftirspurn vegna aukningar langvinnra sjúkdóma og breyttrar aldurssamsetningar samhliða því sem mikill skortur er á starfsfólki.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) áætlar að á heimsvísu vanti 18 milljón heilbrigðisstarfsmenn til að ná markmiðinu um góða heilbrigðisþjónustu fyrir alla árið 2030, þar af er helmingurinn eða 9 milljónir, hjúkrunarfræðingar og ljósmæður. Stofnunin hvetur því þjóðir heimsins til að fjárfesta betur í menntun og starfi þessara tveggja stétta. Hérlendis er skortur á hjúkrunarfræðingum vandamál og í skýrslu Ríkisendurskoðunar árið 2017 voru færð rök fyrir því að það vantaði hundruð hjúkrunarfræðinga.

Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sinna enda afar fjölbreyttum og mikilvægum störfum innan íslensks heilbrigðiskerfis sem endurspeglar hátt menntunarstig og getu stéttanna. Barátta ljósmæðra fyrir velferð og lýðheilsu barna og verðandi foreldra er samofin sögu heilbrigðisþjónustu í landinu. Hjúkrunarfræðingar hafa allt frá tíma Florence Nightingale verið lykilstétt í að efla gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu.

Ég tek undir með forstjóra WHO að það er brýnt að efla mönnun margra heilbrigðisstétta en hér ríður mest á að efla mönnun í hjúkrun. Nú er svo komið að það þolir enga bið. Huga þarf að fjölmörgum þáttum, ekki síst vinnuskipulagi, starfsskilyrðum og kjörum og þeirri vinnu þarf að hraða.

Það hittir vel á með árið 2020 því á síðastliðnu ári fögnuðu báðar stéttir 100 ára afmæli hérlendis og í maí verða 200 ár liðin frá fæðingu Florence Night­ingale sem var ótrúlegur brautryðjandi og langt á undan sinni samtíð.

Ég óska hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum til hamingju með þá sæmd að árið skuli helgað ykkur og vona að það verði mikilvægur liður í því að við Íslendingar og aðrir uppfyllum Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um Heilbrigði fyrir alla.