Ungt fólk gegnir lykilhlutverki við að móta þá framtíð sem bíður komandi kynslóða. Framtíð sem einkennist af félagslegu réttlæti, sjálfbærni og stafrænni þróun. Til að auka vægi ungu kynslóðarinnar í umræðunni og beina sjónum að því sem skiptir hana mestu máli ákvað Evrópusambandið að árið 2022 yrði Evrópuár unga fólksins.

Vegna Evrópuársins hafa verið skipulagðir um 4.000 viðburðir fyrir ungmenni og af ungmennum í Evrópu þar sem málefnin sem standa hjarta þeirra næst eru í brennidepli. Hér á landi hefur Landskrifstofa Erasmus+, sem rekin er af Rannís, nú þegar veitt 3,4 milljónum króna í styrki til 18 viðburða eða viðburða­raða sem virkja að minnsta kosti 1.500 unga einstaklinga. Þessir viðburðir skapa vettvang til samtals um fjölbreytt viðfangsefni, svo sem loftslagsmál, stuðning við flóttafólk og geðheilbrigðismál.

Fimmtudaginn 18. ágúst verður gleðin allsráðandi í Laugardalslauginni því þar fer fram sumarhátíð unga fólksins. Þarna mun ungt tónlistarfólk leika listir sínar meðan sundlaugargestir njóta ofan í laug eða uppi á bakka, því einnig verður opið inn á laugarsvæðið. Boðið verður upp á sætar veitingar, þjálfun í strandblaki og sundballett, fataskiptimarkað og upplýsingar um þau fjölmörgu tækifæri sem standa ungu fólki til boða í Evrópusamstarfi á vegum Rannís.

Miklu máli skiptir að ungt fólk fái að taka virkan þátt í samfélaginu og hafa raunveruleg áhrif alltaf og alls staðar – ekki aðeins í tengslum við ákveðið ár eða átak. Þess vegna eru áætlanir eins og Erasmus+, European Solidarity Corps og Creative Europe til staðar. Þær gefa ungmennum tækifæri til að efla sig gegnum nám og þjálfun, taka þátt í menningarsamstarfi þvert á landamæri, láta gott af sér leiða gegnum sjálfboðastörf og þróa samfélagsverkefni þar sem þau finna sjálf leiðir til að takast á við áskoranir samtímans og koma þeim í framkvæmd.

Við hvetjum allt ungt fólk og fjölskyldur þeirra til að vera með í Evrópuári unga fólksins, hvort sem það er með því að fagna í Laugardalnum, taka þátt í málefnatengdum viðburðum yfir árið eða sækja um styrk í evrópska sjóði á vegum Rannís. Aðgangur í laugina er ókeypis og boðið verður upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá milli kl. 16 og 19.