Um liðna helgi gerðist ég ásamt vinafólki túristi í Reykjavík. Hægt er að gera góða díla í alls konar ferðaþjónustu um þessar mundir. Nótt á Sögu fyrir slikk. Minibar og CNN í sjónvarpinu. Sloppur og inniskór. Súkkulaði á kodda. Nema hvað: Við fórum í siglingu um sundin á gúmmíbát. Veðrið var frábært. Sumt kom á óvart. Ég vissi ekki að á eyjunum við Reykjavík er yfirgripsmikil lundabyggð. Ég hélt að lundar væru mestmegnis bara í Vestmannaeyjum. En þarna eru þeir úti um allt, í eyjunum við Reykjavík.

Leiðsögumaðurinn lumaði á góðum fróðleiksmola. Lundarnir hverfa sjónum okkar yfir vetrartímann, sagði hann. Þá fara þeir í dvala. Í gegnum tíðina hefur það verið sveipað leyndardómi hvert þeir fara. Rannsóknir benda til að þeir setjist einfaldlega á hafflötinn einhvers staðar sunnan við Grænland og láti sig reka þar í marga mánuði. Goggur gránar. Þeir eru bara. Gera ekki neitt. Bara láta sig fljóta. Svo kemur sumarið.

Fólk í híði

Ég fór að hugsa. Svona er þetta auðvitað víða í dýraríkinu. Birnir leggjast í híði. Íkornar hringa sig í holum. Snákar undir steinum. Erfitt er að ímynda sér að mannskepnan geri eitthvað svipað, því hún er óstöðvandi félagsvera og myndi seint þrífast ein í holu undir steini í níu mánuði ár eftir ár eða fljótandi á haffleti án Netflix. Þó megum við mennirnir taka þessa hegðun okkur til fyrirmyndar.

Vírusinn hefur aldeilis kippt í handbremsuna á heimsbyggðinni. Fólk hefur beinlínis þurft að leggjast í dvala. Vera heima hjá sér. Lífið hefur að stórum hluta legið niðri. Auðvitað hefur það haft slæm áhrif á atvinnulíf, alla vega til skamms tíma, og í löndum þar sem beinlínis hefur ekki mátt fara út fyrir hússins dyr hefur geðslag margra sjálfsagt beðið hnekki.

En hér á landi, þar sem okkur var nokkurn veginn bara sagt að slaka á og taka því rólega yfir annars frekar leiðinlega mánuði þar sem aldrei gerist mikið hvort sem er, virðist þjóðin koma vel út úr þessu. Upplýsingar landlæknis benda til að geðheilsa þjóðarinnar hafi batnað í samkomubanninu, fólk hafi drukkið minna og reykt minna og verið minna einmana. Þetta á eftir að rannsaka frekar, en margt bendir til að fólk hafi notað tímann vel, til þess að slaka á, tala saman, dytta að og safna kröftum.

Margt vitlausara

Eigum við þá að gera eins og lundinn? Hafa þetta árlegt? Stöðva þjóðfélagið í mars og apríl á hverju ári hér eftir? Kannski janúar og febrúar líka? Án efa verður það ekki gert, en margt er vitlausara.

Um langt árabil hafa vísindin sagt okkur að miðað við neyslumynstur jarðarbúa – ekki síst okkar Íslendinga – ættum við að hætta öllu vafstri um mitt ár. Auðlindir jarðar þola ekki meiri neyslu en það. Frá því í byrjun ágúst undanfarin ár hefur mannkyn lifað á umhverfislegri yfirdráttarheimild út árið. Slíkt háttalag er vís leið til glötunar. Verkefni samtímans, hið stærsta, er einmitt þetta: Að finna leiðir til þess að slaka. Að hætta. Róa sig.

Frá efnahagslegu sjónarhorni er þetta sjálfsagt vandasamt. Svo rótgróin er hugsunin um stærra og meira, vöxt og velmegun. Upp og áfram. En sú nálgun gengur ekki. Til þess að viðhalda lífsskilyrðum mannkyns þarf að finna leiðir til þess að njóta lífs og lystisemda í jafnvægi við náttúru.

Við skulum því ekki líta svo á að eftirsóknarvert sé að lífið hrökkvi aftur í sinn vanagang eftir að kófinu lýkur. Að allt fari aftur af stað. Stöldrum frekar við. Mótum nýja siði og hætti. Þurfum við að vinna svona mikið? Þurfum við að eiga svona mikið? Nýsjálendingar og Finnar íhuga að stytta vinnuvikuna í fjóra daga. Af hverju ekki við? Og kófið hefur sýnt okkur að hægt er að vinna heiman frá sér án þess að veröldin hrynji. Er það ekki fyrirtaks hugmynd? Leið til þess að reyna einhvern veginn að skapa meira jafnvægi í nálgun okkar á atvinnulíf og umhverfi?

Kófið hefur sem sagt líka sýnt okkur að sálarlega er slökunin okkur góð. Nýjar hliðar á tilverunni hafa afhjúpast okkur með hægð. Smám saman sáu Indverjar fjöllin sín. Og í sumar mun heppinn íslenskur námsmaður fá vinnu við að telja maura. Ég bíð spenntur eftir þeirri tölu.

Gildi hins smáa. Einhvern veginn þurfa þau verðmæti að opinberast okkur, þessi sem liggja í því að gera jafnvel ekki neitt. Þessi sem birtast án þess að stofna þurfi nýtt fyrirtæki með nýrri kennitölu og ráða hundrað manns í vinnu. Þetta er ekki einfalt. Ég veit það. En við verðum.

Veiran er áríðandi skilaboð frá náttúrunni til okkar allra á mjög viðeigandi tímapunkti: Slakið á eða deyið út.