Hvamm-Sturla Þórðarson, ættfaðir okkar Sturlunga, lést árið 1183. Ekkjan, Guðný Böðvarsdóttir, var treg að gera upp erfðamálin. Hún fór fljótlega í funheitt ástarsamband við Ara sterka, bónda á Staðastað, og fór ásamt honum í skemmtiferð til Noregs. Hún notaði þennan ógreidda arf til að fjármagna ferðina. Ari varð bráðkvaddur í ferðalaginu og Guðný neyddist til að fara heim aftur.

Erfðamál eru sérlega vel til þess fallin að kljúfa fjölskyldur í herðar niður. Þau opinbera vel dulda eiginleika eins og græðgi, öfund og afbrýðisemi. Náin skyldmenni hætta iðulega að tala saman vegna einhverra muna í dánarbúi með meint tilfinningalegt gildi. Mörg erfðaskipti enda í skotgrafahernaði með tilheyrandi lögfræðikostnaði og ævarandi sundurlyndi.

Ég heyrði á dögunum um hreyfingu eldri borgara í Danmörku sem kallar sig: „notum arf barnanna.“ Fólk ákveður að koma í veg fyrir blóðugar deilur erfingja sinna með því að eyða öllum arfinum sjálft. Hreyfingin hvetur meðlimi sína til að ferðast sem mest, éta dýrar steikur og drekka eðalvín fyrir alla sína peninga, svo að ekkert verði til skiptanna. Börnin verða bara að spjara sig sjálf. Þau eiga engan sjálfsagðan rétt á eignum foreldra sinna. Slagorð samtakanna er: Þetta eru okkar peningar og við eigum að njóta þeirra.

Guðný Böðvarsdóttir amma mín var langt á undan sinni samtíð. Hún áttaði sig á því að erfðamál eru venjulega til bölvunar. Guðný eyddi arfinum í sjálfa sig og ástmanninn og gaf skít í siðvenjur samtíðar sinnar. Hægt væri að komast hjá fjölmörgum fjölskylduharmleikjum með því að fara að dæmi Guðnýjar og losa blessuð börnin við þá ánauð sem flókin erfðamál eru.