Þeir sem fengu það ekki með móðurmjólkinni að læra á nýjan hugbúnað á hverjum degi eiga það á hættu að lenda undir í samkeppninni við ofurhraðann sem einkennir tækniframfarir og viðskiptaumhverfi nútímans. Er kominn tími á uppfærslu á tækninni og mögulega viðhorfinu gagnvart tækninýjungum? 

Aldamótakynslóðin, sem hámar í sig sífellt stærri hluta launakökunnar, ólst upp við að tölvur hafa verið stór hluti af daglegu lífi hennar í meira en helming ævinnar. X-kynslóðin og eldri kynslóðir telja hins vegar að þær eigi enn val um að uppfæra hjá sér þann hugbúnað sem þær nota á hverjum degi til þess að taka mikilvægar ákvarðanir. Mögulega eru margir hverjir enn með áfallastreituröskun síðan Windows Vista var kynnt til sögunnar og sakna í laumi Windows XP. Þeir sem enn eiga eftir að vera í 10-20 ár á vinnumarkaðnum geta ekki setið eftir í þessari hröðu þróun. Það er ekki hægt að gefast upp og ákveða bara að uppfæra ekki hvort sem um ræðir eiginlega hugbúnaðaruppfærslu eða bara viðhorfið. 

Góðu fréttirnar eru þær að tæknin auðveldar okkur lífið og gerir okkur skilvirkari. Í dag geta fyrirtæki til dæmis stytt afgreiðslutíma hverrar sölu heilmikið með því að bjóða upp á að taka á móti snertilausum greiðslum. Eina sem þarf er að uppfæra hugbúnaðinn á posunum. Þau fyrirtæki sem ekki tileinka sér nýja tækni þegar hún býðst eiga það á hættu að lenda undir með hnausþykkan rekstrarreikning sem verður þeim að falli. 

Lykillinn að því að lenda ekki á eftir í kapphlaupi vinnumarkaðarins er einfaldur. Hann er jákvætt viðhorf til breytinga og gott sjálfstraust til þess að takast á við tækninýjungar. Gríptu allar þær uppfærslur sem á vegi þínum verða og hámaðu þær í þig. Horfðu á hjálparmyndböndin, hlustaðu á hlaðvörpin, sökktu þér ofan í efnið og sigrastu á verkefnunum. Það heldur því nefnilega enginn fram að babyboomers eða X-ararnir séu slakari námsmenn en aldamótakynslóðin. 

Tæknin býður okkur öllum að læra nýja hluti á hverjum degi og halda áfram að vaxa. Það eina sem þarf er viljinn og versti óvinurinn er hroki og hræðsla við óþekk(t)ar uppfærslur.

Höfundur er sérfræðingur í viðskiptagreind hjá Valitor og FKA-félagskona.