Angela Merkel, kanslari Þýska­lands, stígur af pólitíska sviðinu um komandi helgi. Það eru tíma­mót í evrópskum stjórn­málum, enda hefur hún í raun og sann verið leið­togi Evrópu um ára­bil.

Angela er lík­lega merkasti stjórn­mála­leiða­togi álfunnar á þessari öld. Pólitísk leikni hennar, elja og ein­lægni hefur gert hana að far­sælasta ráða­manni sem sögur fara af.

Það er nefni­lega svo að á bak við harðan skrápinn hefur mann­úðin ráðið ríkjum í póli­tískri stjórn­kænsku Angelu Merkel. Og nær­tækast er að rifja upp orð hennar frá því fyrir nokkrum árum, Wir schaf­fen das, sem út­leggst á ís­lensku, við ráðum við það.

Þessi orð hennar eru lýsandi fyrir austur­þýsku prests­dótturina, enda sögð í að­draganda mesta flótta­manna­straums á seinni tímum þegar borgara­stríðið í Sýr­landi var byrjað að lama inn­viði landsins. Wir schaf­fen das, merkti í huga Angelu Merkel að Þjóð­verjar gætu tekið við stærri hópi sýr­lenskra flótta­manna en aðrar þjóðir í grennd. Og það gekk eftir. Þýsk stjórn­völd tóku við 1,2 milljónum flótta­manna frá Sýr­landi sem jafn­gilti þá tæp­lega tveimur prósentum af í­búa­fjölda landsins, en í ís­lenskum saman­burði hefði það merkt að sjö þúsund flótta­menn hefðu komið hingað til lands.

Wir schaf­fen das. Angela byggði þessi orð sín á reynslunni frá heima­slóðum, þegar flóttinn lá frá helsinu í austur­hluta landsins til frelsi vestursins. Þá skutu Vestur-Þjóð­verjar skjóls­húsi yfir tug­þúsundir landa sinna frá austrinu eins og ekkert væri sjálf­sagðara – og nú, í til­viki Sýr­lendinga, gilti það sama.

Í þessu efni hætti Angela sinni eigin stöðu og vin­sældum. Stað­festan vék aldrei. Á sex­tán ára valda­tíma hennar voru engar upp­reisnir. Hún skipaði engan af ættingjum sínum í ríkis­stöður. Allan kanslara­tímann bjó hún í litlu í­búðinni sinni, ekki ein­býlis­húsi. Að­spurð um þvottinn kvaðst hún sjálf laga fötin en karlinn sæi um þvotta­vélina.

Al­þýðu­konan varð aldrei hroka­fullt yfir­vald á sinni valda­tíð.

Og svo breytti hún stöðnuðum stjórn­mála­flokki sínum úr for­pokuðum aftur­halds­flokki í frjáls­lynt afl sem hafnaði þröng­sýni og fagnaði víð­sýni. Hún þokaði gamal­dags kristi­legum demó­krötum inn að miðjunni – og komst upp með það.

Á blaða­manna­fundi var Angela eitt sinn spurð: „Við gerum okkur grein fyrir því að þú ert gjarnan í sömu fötunum, áttu ekki önnur?“ Og hún svaraði: „Ég er em­bættis­maður, ekki módel.“