Á Reykjalundi hefur um árabil verið rekin stærsta endurhæfingarstöð landsins, afar mikilvæg starfsemi til almannaheilla og löngum talin til fyrirmyndar. Að undanförnu hafa landsmenn fylgst í forundran með því hvernig þessi mikilvæga og rótgróna stofnun er í fullkomnu uppnámi eftir að stjórnin hleypti þar öllu í bál og brand. Eftir því sem næst verður komist af fréttum eru tildrög vandræðanna þessi: núverandi stjórnendur SÍBS, sem rekur stofnunina, vildu að greidd yrði leiga af húsnæðinu, en yfirlæknir lagðist gegn því, og var rekinn, með afleiðingum sem enn sér ekki fyrir endann á. Starfsemin er fjármögnuð með almannafé. Hér virðist hafa verið um að ræða afar vanhugsað frumkvæði af hálfu stjórnar Reykjalundar.

Einkaaðilar í heilbrigðisþjónustu geta svo sannarlega verið afar þarfir, og eiga að vera mikilvæg viðbót við grunnkerfið. En þeir koma ekki í stað þess. Sjálfsagt er að nýta til almannaheilla það hugsjónaafl og þann eldmóð sem fylgir iðulega áhugasamtökum á borð við SÁÁ eða Krabbameinsfélagið en gróðasjónarmið eiga ekki heima í slíkri þjónustustarfsemi. Einkaframtakið getur verið þarft en við getum ekki byggt heilbrigðiskerfið upp á því, hversu gott sem það er. Nýjar kynslóðir taka við af frumherjunum, eldmóðurinn dvínar; til áhrifa í félögum geta brotist öfl sem líta á alla starfsemi sem tækifæri til að fá arðgreiðslur. Búa þarf svo um hnútana í slíkum félögum að það geti ekki gerst.

Við þurfum að draga lærdóma af þessu máli, til dæmis þennan: Gróðasjónarmið mega aldrei ráða för við uppbyggingu velferðarkerfisins, hvort sem um er að ræða heilbrigðisþjónustu, tryggingarstarfsemi, skóla eða aðra innviði sem við byggjum líf okkar og samfélag í kringum, og fáum öll arðinn af, þótt ekki verði hann mældur í krónum og aurum.