Hvernig væri lífið ef það skipti engu máli hvaðan þú ynnir – aðalatriðið væri að skila þínu? Myndir þú búa annars staðar? Hvað ef allt væri leyfilegt og þú værir ekki bundin/n vinnustað?

Óhætt er að fullyrða að störf án staðsetningar urðu að raunveruleika 70% landsmanna í COVID. Ýmist finnst okkur dásamlegt að þurfa ekki að ferðast til og frá vinnu, geta jafnvel blandað því saman að vinna sum verkefni á vinnustað og önnur heima eða þá að taka út fyrir að geta ekki aðskilið vinnu og heimilislíf. Hið góða við þetta allt saman er að nú höfum við val. COVID hefur sýnt og sannað að framleiðni flestra er ekki síðri og algerlega óhætt að stokka spilin að nýju.

Félag kvenna í atvinnulífinu stendur fyrir ráðstefnu á Bifröst á laugardaginn kemur. Ráðstefnan verður send út á Zoom og er hlekkinn að finna á heimasíðu FKA. Fyrirlesarar eiga það allir sameiginlegt að blómstra við búsetu á landsbyggðinni og sjá tækifærin sem COVID hefur fært okkur. Landsbyggðadeildir FKA standa að ráðstefnunni og eru allir velkomnir. Erindin eru hvert öðru meira spennandi. Þar er meðal annars sagt frá því hvernig Húsafell var þróað yfir í að vera ferðamannastaður í hæsta gæðaflokki, við heyrum sögu konu sem var alin upp í Reykjavík, fór í háskóla í Danmörku en býr nú á Hegranesi og selur fæðubótarefni sem hún býr til um allan heim. Þá verður fjallað um fyrirtækið Ritari á Akranesi sem svarar í síma fyrir allt landið. Við kynnumst hugmyndum um markaðssetningu landshluta, menntun á landsbyggðinni, fyrirtækjunum Ölverki fyrir sunnan og Eimi fyrir norðan, tímaritinu Sumarhúsið og garðurinn sem er gefið út í Hveragerði. Vitaskuld mun samgönguog sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, opna ráðstefnuna auk þess sem Sigrún Davíðsdóttir fréttaritari RÚV í London segir frá nándinni í fjarlægðinni