Um áramótin hófst Áratugur endurheimtar vistkerfa undir forystu Sameinuðu þjóðanna. Hér á Íslandi er verkefnið leitt af Landgræðslunni en endurheimt vistkerfa snýst um að stuðla að því að röskuð vistkerfi nái aftur fullri virkni samhliða því að vernda óröskuð vistkerfi.

Öll endurheimt votlendis á vegum Votlendissjóðsins eru unnin í samvinnu við Landgræðsluna sem mælir og metur verkefnin fyrir og eftir framkvæmd. Landgræðslan vinnur matið út frá viðurkenndum stöðlum IPCC, milliríkjanefndar Sameinuðu-þjóðanna, um loftslagsmál. Þannig eru verkefni sjóðsins unninn með hliðsjón af alþjóðlegum viðmiðum. Landgræðslan færir svo öll endurheimtarverkefni Votlendissjóðs í landsbókhald.

Endurheimt votlendis er skilgreind sem aðgerð í þágu lofstlagsmála í umhverfisstefnu Bændasamtakana, í stefnu stjórnvalda og loftslagsráði Sameinuðu þjóðanna.

Tækifærin til að minnka losun koldíoxíðs eru mörg í endurheimt votlendis og mikið hefur verið rætt um þann þátt hennar. En það má ekki horfa framhjá því að með endurheimt votlendis eykst náttúrulegur fjölbreytileiki og fuglum og fiskum fjölgar á endurheimtum svæðum. Öflugri vistkerfum fylgir meiri líffræðileg fjölbreytni, frjórri jarðvegur, meiri uppskera, aukin kolefnisbinding og meiri kolefnisforði.

Það eru einkum þessir þættir sem lögð er áhersla á nú á áratugi endurheimtar vistkerfa en auk þess getur endurheimt votlendis stuðlað að betri vatnbúskap og eflt fiskgegnd í ám og vötnum.

Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, rannsókna og ráðgjafastofnun hafs og vatna, hefur skoðað áhrif endurheimtar votlendis á vatnsbúskap veiðiáa. Í erindi sem hann flutti á málstofu á vegum sjóðsins haustið 2019 kom það meðal annars fram að veruleg miðlun yfirborðsvatns væri frá votlendi í ár og vötn og það bætti lífsskilyrði vistkerfanna á svæðunum.

Áratugur endurheimtar vistkerfa er mikilvægur vettvangur til að efla umræðu um gildi hennar á líffræðilegan fjölbreytileika. Votlendissjóðurinn leitar að áhugasömum landeigendum til samstarfs um endurheimt á votlendi. Endurheimt stöðvar losun gróðurhúsaloftstegunda, eflir líffræðilega fjölbreytni, fuglalíf og styrkir vatnsbúskap í veiðiám.

Höfundur er framkvæmdastjóri Votlendissjóðs.