Fyrir tíu árum tryggði íslenska kvennalandsliðið sig fyrst íslenskra A-landsliða inn á stórmót í fótbolta, þegar þær komust á EM í Finnlandi 2009. Þær hafa síðan þá endurtekið leikinn tvisvar sinnum, þegar stelpurnar okkar komust á EM 2013 í Svíþjóð og EM 2017 í Hollandi. Bestum árangri náði liðið í Svíþjóð þegar þær komust í fjórðungsúrslit en féllu út gegn sterku liði heimakvenna. Það þarf varla að rifja upp að strákarnir okkar komust fyrst á stórmót þegar liðið komst á EM í Frakklandi 2016. Strákarnir náðu þá þeim frábæra árangri að komast í fjórðungsúrslit þar sem þeir þurftu að lúta í gras fyrir heimamönnum.

Fyrir áratug var íslenska karlalandsliðið í 83. sæti heimslista FIFA en kvennalandsliðið í 19. sæti. Kvennaliðið hækkaði sig svo upp í 15. sæti frá árunum 2011 til 2012 en er aftur komið í 19. sæti listans. Frá 2008 til 2010 lækkaði karlaliðið úr 83. sæti niður í það 112. sem er það lægsta sem liðið hefur farið á listanum. Frá 2010 hefur leiðin legið upp á við og er liðið núna í 22. sæti listans.

Við hjá Gallup könnuðum áhuga landsmanna 18 ára og eldri á HM í Rússlandi, væntingar til frammistöðu íslenska liðsins og hvaða lið fólk telur líklegast til að vinna mótið. Alls eru 49% sem hafa mikinn áhuga á HM en 34% hafa lítinn áhuga á mótinu, en til samanburðar höfðu 48% mikinn áhuga á EM 2016 og 38% lítinn áhuga. Það kemur líklega ekki á óvart að áhugi er meiri hjá körlum en konum, 58% karla en 40% kvenna hafa mikinn áhuga.

Þegar væntingar til árangurs íslenska liðsins á EM voru skoðaðar í aðdraganda mótsins 2016 voru 13% sem höfðu rétt fyrir sér um að Ísland myndi komast í fjórðungsúrslit en ekki lengra. Almennt taldi fólk að íslenska liðið myndi ná lengra á EM en það telur að það muni ná á HM. Nú telja 57% að liðið komist upp úr riðlinum en á EM var það 71% þátttakenda. Ef skoðað er hve margir telja að Ísland komist í fjórðungsúrslit eða lengra þá eru það 23% nú en voru 29% fyrir EM. Konur hafa meiri trú á strákunum en karlar, en alls eru 29% kvenna sem telja að þeir komist í fjórðungsúrslit eða lengra en 17% karla. Alls eru 12% þátttakenda sem telja að Ísland komist í undanúrslit HM og 6% telja að Ísland fari alla leið í úrslitaleikinn sem er u.þ.b. einu prósentustigi færri en þeir sem töldu að Ísland kæmist í úrslit EM 2016 þegar spurt var hve langt Ísland myndi ná í keppninni.

Í könnuninni 2016 voru aðeins 6% þátttakenda sem spáðu rétt fyrir um að Portúgal yrði Evrópumeistari í fyrsta sinn. Fjórir af hverjum tíu Íslendingum töldu að Þjóðverjar yrðu Evrópumeistarar. Næstflestir, eða 17%, höfðu mesta trú á að Frakkar myndu sigra en svo voru 13% sem töldu að Spánverjar yrðu Evrópumeistarar í þriðja sinn í röð. Eins og fyrir EM hefur íslenska þjóðin mesta trú á að Þjóðverjar verði meistarar. Alls eru 34% sem telja að Þjóðverjar verji titilinn og verði þannig heimsmeistarar í fimmta sinn og jafni þar með metin við Brasilíumenn sem hafa oftast orðið meistarar. Þátttakendur hafa næstmesta trú á Argentínu, en 19% telja að Messi og félagar standi uppi sem sigurvegarar í lok móts. Aðeins tveimur prósentustigum færri, eða 15%, telja að Frakkar verði heimsmeistarar núna en töldu að þeir yrðu Evrópumeistarar á heimavelli fyrir tveimur árum síðan. Tiltrú Íslendinga á Spánverjum er mun minni fyrir HM nú en fyrir EM 2016 og fáir eða 4% hafa trú á því að Evrópumeistarar Portúgala lyfti bikarnum eftirsótta þann 15. júlí næstkomandi.

Þannig völdu 6% þátttakenda, sem tóku afstöðu þegar spurt var beint hverjir verði heimsmeistarar, Ísland en það voru 8% sem giskuðu á Ísland sem Evrópumeistara fyrir tveimur árum.

Næstu vikur og mánuðir verða spennandi fyrir landsliðin okkar í fótbolta. Strákarnir okkar að skrifa nýjan kafla í sögu íslenskrar knattspyrnu með þátttöku á HM og stelpurnar okkar í dauðafæri að tryggja sér þátttöku á HM í Frakklandi 2019.

ÁFRAM ÍSLAND!