Eina dimma vetrarnótt sofnuðu tíbeskir munkar á klettasyllu í -17 gráðum. Einu klæði þeirra voru ullar- eða bómullarsjal. Enginn skalf og allir vöknuðu við sólarupprás og héldu í klaustrið sitt. Atburðurinn var festur á filmu af rannsóknarteymi frá Harvard, sem hefur sýnt fram á að með huganum getum við stjórnað ýmissi líkamsstarfsemi.

Eins og hugurinn er magnaður getur það verið þrautin þyngri að standa við áramótaheit. Þekkt rannsókn sýndi að 92% fólks standa ekki við áramótaheit sín.

Áramót eru samt kjörinn tími til að líta yfir farinn veg og huga að næstu skrefum. Oftast ganga áramótaheit út á að bæta heilsu okkar sem er jákvætt í sjálfu sér. Í stað þess að strengja áramótaheit hafa taugavísindamenn ráðlagt að betra væri að tileinka sér nýjan lífsstíl í skrefum. Ef maður ætlar að hætta að borða sykur þá er gæfulegra að minnka sykurinn smám saman. Og ef uppáhaldskonfektmolinn er á veisluborði frænku er lífsstílsbreytingin ekki unnin fyrir gýg þó að maður fái sér einn.

Við þurfum ekki að hafa fullkomna stjórn á eigin lífi til að njóta þess. Fæst okkar eru fær um það. Kannski snýst það meira um að lifa eftir þeim gildum sem skipta okkur máli. Að vera sátt og þakklát fyrir það sem við höfum en jafnframt stefna að markmiðum okkar, sem geta verið að heimsækja vin, borða hollara eða hreyfa okkur meira.

Við komumst líklega aldrei nálægt sjálfstjórn tíbesku munkanna en hugur okkar er öflugri en við oft teljum. Við breytum ekki heilanum á einni nóttu en með hverri atlögu styrkjast taugabrautir að nýju markmiði – þessi torfæruslóði verður ekki greiðfær með einni ferð.

Ég óska lesendum velfarnaðar og gæfu á nýju ári.