Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO tileinkar ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum árið 2020 og vill með því vekja athygli á mikilvægi þessara stétta innan heilbrigðisþjónustunnar. WHO telur að þessar stéttir séu um helmingur heildarmannafla heilbrigðisstarfsmanna í heiminum. Telur stofnunin jafnframt að heimurinn þurfi níu milljónir hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til viðbótar til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir 2030 en öll aðildarríki hafa skuldbundið sig til að innleiða markmiðin sautján, þar með talið Ísland. Fyrir Ísland ætti það ekki að vera erfitt verkefni að leysa.

Við ættum fyrir löngu að hafa áttað okkur á því hvaða hlutverk þessar stéttir hafa og geta haft. Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, telur að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður séu í lykilhlutverki í heilbrigðiskerfinu.

Þessar stéttir séu einn mikilvægasti hlekkurinn milli fólksins í samfélaginu og flókins heilbrigðiskerfis. Hann bendir einnig á að ófullnægjandi mönnun þessara stétta getur leitt til verri útkomu fyrir sjúklinga, eins og margrannsakað hefur verið. Ef mönnun þeirra og starfsumhverfi er ábótavant er í raun ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga. Skortur á starfsfólki eykur líkur á mistökum í starfi, leiðir til minni gæða í þjónustu, minni starfsánægju, aukins álags og streitu og að lokum til kulnunar í starfi.

Efst á jafnréttislista – ­endurspeglast ekki í launum

Það er ljóst að miðað við núverandi stöðu í íslensku heilbrigðiskerfi að nauðsynlegt er að gera miklum mun betur. Meðalaldur hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra er hár og þrátt fyrir nýliðun í stéttunum þarf að tryggja að fólk haldist í því starfi sem það menntaði sig í en velji sér ekki annan starfsvettvang, eins og því miður alltof algengt er. Fjárfesting í menntun, starfsþróun, betra starfsumhverfi og bættum kjörum ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga er til hagsbóta fyrir okkur öll.

Ellefta árið í röð situr Ísland í efsta sæti á kynjajafnréttislista Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum. Þó allar ljósmæður landsins og 97% hjúkrunarfræðinga séu konur, er ljóst að jafnréttið endurspeglast ekki í starfskjörum stéttanna. Því þarf að breyta. WHO leggur einnig áherslu á jafnrétti kynjanna í heilbrigðiskerfinu og vill að tekið sé á hvers kyns misrétti og mismunun í þessu samhengi.

Að sama skapi eru þjóðir heimsins hvattar til að nýta enn frekar menntun og reynslu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í heilbrigðiskerfinu en þegar er gert. Á þann hátt er hægt að veita skilvirkari, öruggari og hagkvæmari þjónustu, sem einnig er betri að gæðum.

Við hvetjum íslensk yfirvöld, hjúkrunarfræðinga og ljósmæður til að nýta árið til fullnustu með betri heilbrigðisþjónustu að leiðarljósi fyrir alla landsmenn.