Komið er að skuldadögum unga fólksins sem missti vinnuna í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og sá þann kost vænstan að hefja nám og flytja á stúdentagarða. Lánin sem tekin voru til að forða þessari kynslóð frá langtímaatvinnuleysi eru komin á eindaga og rukkanir frá LÍN teknar að hrannast upp í netbönkum.

Það er komið að næstu kynslóð, yngri systur hrunkynslóðarinnar, að flykkjast í háskólana á lánum frá LÍN. Ekkert að því í sjálfu sér. Menntun er besta vörnin gegn langtímaatvinnuleysi.

Það eru vel þekkt kreppuvísindi að ungt fólk er viðkvæmt fyrir hagsveiflum. Atvinnuleysi var mest meðal ungs fólks á eftirhrunsárunum og því var hættara við langtímaatvinnuleysi en öðrum aldurshópum. Þær atvinnugreinar sem nú verða fyrstar til að falla fyrir samkomubanni og röskun á samgöngum til landsins hafa í ofanálag að miklu leyti byggst á vinnuframlagi ungs fólks; skemmtistaðir, veitingahús, hótel og önnur þjónusta. Aðrar atvinnugreinar munu falla í kjölfarið.

Við þurfum að búa okkur undir að atvinnuleysi meðal yngsta aldurshópsins á vinnumarkaði rjúki nú upp úr öllu valdi. Námsmenn munu ekki fá sumarstörf og menntaskólanemar sem setið hafa heima síðan um miðjan síðasta mánuð munu mæla göturnar í sumar, verði ekkert að gert. Fáir þekkja áhrif þess betur en Finnar sem misstu heila kynslóð í örorku eftir kreppu sem þeir gengu í gegnum undir lok síðustu aldar.

Ljóst er að það þarf annað og meira en innspýtingu í vega- og byggingaframkvæmdir til að koma til móts við ungu konurnar sem hafa borið uppi ferðaþjónustuna. Nema með fylgi hvatning til þeirra um að skella sér í gröfupróf og flytjast á landsbyggðina þar sem umrædd atvinnubótastarfsemi mun að miklu leyti fara fram.

Ólíklegt er einnig að heimild til úttektar á séreignarsparnaði muni nýtast ungu kynslóðinni. Þar er slíkum sparnaði einfaldlega ekki til að dreifa.

Ráðherrar mennta- og félagsmála eru nú þegar farnir að impra á aðkomu LÍN að opinberum aðgerðum í yfirvofandi þrengingum. Menntun er vissulega verðmæt, ekki síst sjálfrar menntunarinnar vegna, bæði fyrir einstaklingana sem hana hafa fengið og fyrir samfélagið allt. Á Íslandi er staðreyndin hins vegar sú að ávinningur einstaklinga af háskólanámi er minni en annars staðar í Evrópu. Þótt laun fari að meðaltali hækkandi með aukinni menntun, verja háskólamenntaðir Íslendingar um það bil heilum mánaðarlaunum á ári í afborganir af námslánum. Þeir njóta því einungis launa ellefu mánuði á ári eins og formaður BHM benti á grein í Fréttablaðinu í september 2018.

Þeim ráðuneytum sem munda nú lúðrana til sóknar og varnar fyrir ungu kynslóðina er báðum stýrt af þeim stjórnmálaflokki sem leiddi skuldaleiðréttinguna sællar minningar. Þau fá nú annað tækifæri til að meta í verki þær byrðar sem unga fólkið tók á sig eftir hrun og forða Íslendingum frá sambærilegum ógöngum og Finnar lentu í við lok síðustu aldar. Menntum fólkið okkar, hættum strax að senda námslán í innheimtu og breytum stórum hluta þeirra í styrki. Við græðum öll á því á endanum.