Í fámennum þjóðfélögum skiptir höfuðmáli að leikreglur séu virtar. Leikreglur sem miða að því að þau sem búa yfir mestum verðleikum og atgervi gegni mikilvægum trúnaðarstöðum þar sem heill þjóðar er undir.

Sem dæmi gengur ekki að umboðsmaður Alþingis sé einhver handvalinn vitleysingur. Hann má hvorki vera vanhæfur flokksgæðingur tiltekins ráðherra né virk fyllibytta eða pervert, því mikið er undir að traust ríki hjá almenningi um störf hans.

Til að auka líkur á að hæfustu umsækjendur fái þau störf sem þykja vandasömust, hafa ýmsar löggjafir orðið að veruleika. Ein umbótanna er starfsmannalög. Lögin hverfast um þá meginreglu að skipulagi skuli fylgt og stöður skuli auglýstar í þágu ríkisins, en ekki síður í þágu einstaklinganna sem ættu réttilega að geta sótt um. Það er vegna þess að sá sem leggur meira á sig en aðrir og getur sýnt fram á árangur með mælikvörðum og framkomu er betur fallinn til að gegna krefjandi embætti en sá sem ekki þarf að sanna hæfni sína.

Reyndar eru til undanþáguákvæði sem kallast það vegna þess að þau eiga að flokkast undir undanþágur.

Að samantekt forsætisráðuneytisins leiði í ljós að fimmtungur embættisskipana frá 2009 hafi átt sér stað án þess að staða hafi verið auglýst, er ekki dæmi um vilja löggjafans eða anda laganna. Þvert á móti er sú tölfræði ekkert annað en hneyksli, til þess fallið að grafa undan trausti.

Það spyr spurninga um verðleika og andverðleika að á síðustu tólf árum hafi embættismaður 67 sinnum verið fluttur í annað embætti án auglýsingar.

Það vekur spurningar að safnafólk, fornleifafræðingar og ýmsir aðrir faghópar sem hafa brugðist af hörku við ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra um að skipa í stöðu þjóðminjavarðar án auglýsingar, hafi verið hafðir að fíflum – fyrir utan eitt stórt ráðherrasorrý á þingi fyrir austan.

Það vekur spurningar að Lilja segi í fjölmiðlum að tillaga um hennar umdeildu skipan hafi komið frá ráðuneytisstjóra hennar, Skúla Eggert Þórðarsyni, því styr stóð um skipan Skúla án auglýsingar og áður hafði Lilja lögsótt konu sem hafði þótt hæfust, en tapað því máli með nokkurri skömm.

Í fámennum þjóðfélögum skiptir enn meira máli en í þeim fjölmennari að leikreglur séu virtar.

Því hér eru meiri líkur á nepótisma og andverðleikaráðningum en í stærri samfélögum.