Í skýrslu sem birt var á vef Stjórnarráðsins 15. janúar um fyrirkomulag sóttvarna á landamærum var vísað til fylgiskjals sem vantaði í skýrsluna. Fréttablaðið óskaði eftir umræddu fylgiskjali og fékk það loks afhent nú í vikunni.

Skýringa var óskað á því hvers vegna fylgiskjalið var ekki birt með skýrslunni eins og önnur fylgiskjöl hennar. „Ráðuneytið taldi óvarlegt að birta fylgiskjal 3 nema að betur athuguðu máli,“ segir í svari Stjórnarráðsins við fyrirspurn blaðsins.

Í umræddu skjali eru meðal annars birtar upplýsingar um fjölda þeirra sem fóru í sýnatöku á landamærum á tilgreindu tímabili í lok síðasta árs, auk niðurstaðna úr sýnatöku. Upplýsingarnar eru sundurliðaðar eftir búsetu, þjóðerni og brottfararstað. Af skjalinu má ráða að langflestir sem greindust jákvæðir í fyrstu skimun á landamærum á umræddu tímabili höfðu pólskt ríkisfang.

Í nýlegri skýrslu þjóðaröryggisráðs er fjallað ítarlega um baráttuna við heimsfaraldurinn og helstu aðgerðir stjórnvalda rifjaðar upp frá því neyðarstigi almannavarna var lýst yfir fyrir rúmu ári. Af yfirferðinni er ljóst að stjórnvöld hafa sjaldan staðið frammi fyrir annarri eins ógn við þjóðaröryggi hér á landi. Fjallað er sérstaklega um gildi upplýsingagjafar til almennings og hve mikinn þátt upplýsingafundir almannavarna hafi átt í því að halda faraldrinum niðri á landinu.

Svar Stjórnarráðsins um ástæður þess að fyrrnefnt fylgiskjal var ekki birt bendir hins vegar til að stjórnvöld hafi haldið að sér upplýsingum sem liggja til grundvallar sóttvarnaaðgerðum af ótta við útlendingaandúð sem blossað gæti upp.

Stjórnvöldum er vorkunn. Fjölmiðlafólk finnur fyrir þessum ótta líka enda er ógnin raunveruleg. Andúð á innflytjendum er raunveruleg á Íslandi. Þegar slík andúð verður til þess að við getum ekki talað saman, miðlað upplýsingum og tekið ákvarðanir byggðar á þeim verður hún ógn við þjóðaröryggi.

Það er lífsspursmál að auka umburðarlyndi og náungakærleik hér á landi. Útlendingaandúð og fordómar eru ekki síður ógn við þjóðaröryggi en hryðjuverk, skipulögð brotastarfsemi og farsóttir. Ef stjórnvöld geta ekki veitt borgurum upplýsingar af ótta við fordómafull viðbrögð, þurfum við að horfast í augu við að okkur sé ekki treystandi fyrir upplýsingum. Þá eigum við gegnsæið ekki lengur skilið. Við þurfum að horfast í augu við og viðurkenna þetta.

Reiðialda hefur farið um landið undanfarna daga vegna meintra sóttvarnabrota. Látum okkur frekar renna þá reiði en hella olíu á eld útlendingaandúðar og verum traustsins verð. Þau smit sem komast inn fyrir landamærin verða aldrei pólskum innflytjendum að kenna. Þau eru ekki síst afleiðing af vanmætti okkar til að ráða niðurlögum haturs og umburðarleysis. Við verðum að gera betur.