Fólkið í landinu stendur frammi fyrir djúpstæðum vanda.

Eftir bankahrunið 2008 fól Alþingi kjörnum fulltrúum fólksins að semja nýja stjórnarskrá í samræmi við tilmæli þjóðfundar þar sem allir Íslendingar sátu við borðið enda voru 950 þjóðfundarfulltrúar valdir af handahófi úr þjóðskrá. Verkið tókst vel, svo vel að 67% kjósenda lögðu blessun sína yfir frumvarp stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 og 83% kjósenda lögðu sérstaka blessun sína yfir auðlindaákvæðið.

Upphafsmálsgrein aðfaraorða frumvarpsins leggur grunninn að auðlindaákvæðinu:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð.“

Vandinn nú er sá að Alþingi snerist gegn eigin vegferð með því að snúa baki við frumvarpi sem samið var eftir lögum og reglum sem þingið setti sjálft. Það hefur aldrei áður gerst í vestrænu lýðræðisríki ef þá nokkurs staðar að þjóðþing vanvirði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.

Hvað veldur?

Ýmsar skýringar koma til álita.

Líklega var allstór hluti alþingismanna í raun andsnúinn stjórnarskrárferlinu frá byrjun. Þeir kusu að þegja andspænis fólkinu sem krafðist úrbóta en lögðu síðan steina í götu þegar frá leið. Sneypa Alþingis keyrði loks um þverbak í málþófi á vormánuðum 2013 og svo fór að enginn þingmaður þurfti að opinbera hug sinn til nýju stjórnarskrárinnar í atkvæðagreiðslu á þingi. Þó hafði meirihluti þingheims, 32 þingmenn af 63, opinberlega lýst stuðningi við staðfestingu nýju stjórnarskrárinnar. Í þessu ljósi er fróðlegt að bera saman vinnubrögð íslenskra þingmanna og breskra þingmanna gagnvart Brexit.

En hvers vegna er andstaða íslenskra þingmanna við nýju stjórnarskrána svo mikil að skýr þjóðarvilji er vanvirtur?

Valddreifing rennur eins og rauður þráður í gegnum nýju stjórnarskrána og er í samræmi við niðurstöðu þjóðfundarins 2010. Þannig knýr hún alþingismenn til lagasetningar um ýmsa hluti sem óhjákvæmilega munu raska ríkjandi valdajafnvægi. Semja þyrfti ný lög um gegnsæi og upplýsingaskyldu, auðlindir, auðlindanýtingu, stöðuveitingar, alþingiskosningar, málskotsrétt þjóðarinnar og íbúalýðræði. Allt þetta dreifir valdi og eflir aðhald og eftirlit með stjórnmálamönnum. Víst er að slíkar grundvallarbreytingar hugnast ekki öllum og síst þeim sem standa hagsmunaöflum næst. Því miður virðast flestir flokkar á Alþingi híma í skugga þeirra.

Sem gerir að verkum að stjórnmálamenn og flokkar eru illa til þess fallnir að semja stjórnarskrá. Hagsmunatengsl, bein og óbein, leynd og ljós, eru einfaldlega of mikil. Viðsnúningur auðlindaákvæðisins færir okkur heim sanninn um þetta.

Að semja nýja stjórnarskrá er verk sem enginn getur gert svo fullt gagn sé að nema þjóðin sjálf. Hún hefur þegar gert það. Það stendur upp á Alþingi að hætta að flækjast fyrir.

Næsta grein fjallar um tilurð kvótakerfisins og veiðiréttinn.