Í starfi Aflsins hafa ráðgjafar orðið varir við að æ fleiri skjólstæðingar sem leita til Af lsins eftir ráðgjöf hafa upplifað andlegt of beldi og þegar tölfræðin er skoðuð síðustu ár hafa um og yfir 75% nýrra skjólstæðinga upplifað andlegt of beldi. Andlegt of beldi getur átt sér stað í hvaða samskiptum sem er, hvort sem um er að ræða ástarsamband, vinasamband, foreldrasamband eða jafnvel inni á vinnustöðum.
Ef við skoðum sérstaklega birtingarmyndir og af leiðingar andlegs of beldis í nánum samböndum þar sem við gefum okkur að gerandinn sé karlmaður og þolandinn kona, þó að þessi hlutverk geti verið allavega, má oft sjá að í upphafi sambands er gerandinn mjög sjarmerandi og er duglegur að ausa lofi og gjöfum yfir þolandann. Hann segir þolanda að hún sé fallegasta kona sem hann hafi hitt og enginn sé betri en hún. Eftir vissan tíma, jafnvel mjög stuttan, fer þó að bera á annarri hegðun og byrjar sú hegðun gjarnan á lúmskan hátt þannig að þolandinn á erfitt með að festa fingur á að eitthvað óheilbrigt sé að eiga sér stað. Þarna ber oft á fyrstu merkjum niðurrifs í formi þess að gerandinn fer að finna að þolandanum og „fullkomna“ konan í upphafi sambandsins fer í auknum mæli að finna fyrir því að gerandanum finnist hún ómöguleg og lítils virði, sem verður ansi mikill viðsnúningur frá fyrri lofum.
Gerandinn stjórnar andrúmslofti heimilisins með fýlu og þögn þannig að aðrir á heimilinu fara að læðast um og láta lítið fyrir sér fara. Hann er oft af brýðisamur, stýrir og fylgist grannt með gjörðum og ferðum þolandans, öskrar eða sýnir aðra ógnandi hegðun sem er til þess fallin að sýna hver það er sem ræður. Hann brýtur niður sjálfsmynd þolandans með ýmsum hætti, telur þolanda trú um að hún sé vonlaus, muni ekki komast af án hans og að enginn annar komi til með að vilja vera með henni ef hún hættir í sambandinu. Einnig er algengt að gerandinn einangri þolandann og reyni að snúa honum gegn fjölskyldu sinni og vinum. Í þessum aðstæðum er algengt að þolandinn hætti að hafa trú á sjálfri sér og innsæi sínu og fer að trúa orðum gerandans þrátt fyrir að vita betur. Þegar hún á í samskiptum við gerandann gæti hún allt eins verið að tala við vegg því samskiptin eru einungis eftir geðþótta og forsendum geranda hverju sinni. Þolandi verður í kjölfarið ringlaðri og óöruggari um sjálfa sig í þessum streituvaldandi samskiptum.
Gaslýsing er mjög alvarleg birtingarmynd af andlegu of beldi sem getur haft miklar og skaðlegar afleiðingar á lífsgæði og sjálfsmat þolandans. Gerandinn notar þessa samskiptatækni til þess ná sínu fram og snýst hún um að þolandinn efist um sjálfa sig og upplifanir sínar. Gerandinn þykist ekki muna eftir fyrri samræðum sem áttu sér stað og snýr öllu því sem þolandinn segir í öfuga átt þannig að þolandinn kemur alltaf illa út. Þegar þolandinn tjáir sig um líðan sína neitar gerandinn að hlusta og gerir lítið úr henni og upplifunum hennar.
Í nánu sambandi eigum við að upplifa öryggi, stuðning, ást og kærleika. Við eigum ekki að þurfa að lesa stöðugt í aðstæður, forðast átök eða efast um eigið ágæti. Ef þú upplifir og kannast við eitthvað sem hér hefur verið skrifað um gæti verið gott fyrir þig að íhuga að leita eftir aðstoð til að finna aftur þinn innri styrk og fá trú á innsæið þitt. Það er víða hægt að fá aðstoð og samtök eins og Aflið, Bjarmahlíð, Kvennaathvarfið o.fl. bjóða upp á fræðslu og stuðning um ofbeldi og afleiðingar þess, að kostnaðarlausu.