Valdatíð Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, lýkur klukkan 17 í dag að íslenskum tíma.

Joes Biden bíður það erfiða verkefni að leiða bandarísku þjóðina saman eftir fjögurra ára ófrið og óreiðu. Hann mun þurfa að leita jafnvægis milli þess að stilla til friðar milli stríðandi fylkinga og hins, að rannsaka og upplýsa um þá brotastarfsemi sem forsetinn og hans fólk virðist hafa stundað og draga þau til ábyrgðar.

Það er þekkt herkænska að sá sem vinnur orrustu skuli ganga úr skugga um að hann hafi reitt höggið til fulls og andstæðingurinn eigi ekki afturkvæmt.

Samkvæmt nýrri könnun segjast 55 prósent Repúblikana munu styðja Donald Trump í forkosningum, verði hann í kjöri aftur 2024. Þótt stuðningur við hann hafi fallið um 16 prósent síðan í desember er ljóst að fráfarandi forseti er fjarri lagi dauður úr öllum æðum og gæti allt eins unnið stríðið þótt þessi orrusta hafi tapast. Afstaða herskárra Demókrata, sem vilja fara gegn Trump, starfsliði hans og fylgdarliði, er því skiljanleg, enda verða óteljandi afglöp og embættisbrot forseta frá fyrri tíð hjákátleg í samanburði við það sem nú hefur gengið á.

Ímynd Bandaríkjanna út á við mun óumflýjanlega styrkjast eða veikjast eftir því hvernig nýjum valdhöfum gengur að ná áttum innanlands og byggja aftur þær brýr til alþjóðasamfélagsins sem brotnar hafa verið í spón með tilheyrandi tjóni fyrir heimsbyggðina.

Til lengri tíma felst stærsta áskorunin ekki síst í því að endurreisa vægi sannleikans í þjóðfélagsumræðunni. Það verkefni verður þó ekki nema að takmörkuðu leyti í höndum nýs forseta. Við verðum þó að vona að rykið verði dustað af þeirri eðlilegu kröfu að leiðtogi hins frjálsa heims fari alla jafna með rétt mál og ljúgi ekki bókstaflega öllu sem hann segir. Og að sama krafa verði í auknum mæli gerð til fjölmiðla.

Vandaðir fjölmiðlar vestanhafs geta sannarlega varið kröftum sínum í annað en endalausar og lýjandi leiðréttingar á rangfærslum valdhafa. Til dæmis í að miðla réttum upplýsingum til borgaranna um stöðu mála innanlands og um allan heim.

Erfiðara getur reynst að takast á við afleiðingarnar af þeim flaumi lyga og samsæriskenninga sem runnið hefur upp úr fráfarandi forseta undanfarin fjögur ár. Valdatíð Donalds Trump hefur sýnt hvernig hægt er að afvegaleiða almenning í landi sem hefur yfir að ráða öflugustu fjölmiðlum í heimi. Viðleitni þeirra til að miðla réttum upplýsingum hefur farið fyrir ofan garð og neðan hjá tugum milljóna manna og sá heilaþvottur sem liðist hefur í Bandaríkjunum undanfarin ár hefur dreifst víða um heim.

Einn vandi sem fjölmiðlar standa frammi fyrir er að Biden er óneitanlega frekar óspennandi forseti og hætt við að lestur og áhorf hrynji þegar Donald Trump hverfur af sjónarsviðinu. Því fylgir væntanlega fækkun áskrifenda og áhorfenda þeirra miðla sem meta sannleika og upplýsingar meira en aulagrín og kjánahroll.