Það er ekki góð skemmtun að eiga við fólk sem er með brókina í flækju flesta daga.


Viðkomandi einstaklingum líður ekki vel, enda, eins og gefur að skilja, óþægilegt að sitja á slíkri flækju.


Áhrifin sem við getum haft á lundarfar samferðafólks okkar eru þó takmörkuð. Það má líta á þau eins og árhringi trjáa.


Ef við erum kjarninn þá eru hringirnir í kringum okkur fólkið sem við eigum eitthvað saman við að sælda.


Það er hins vegar eingöngu í hringnum næst okkur sem aðstæðurnar og einstaklingarnir sem við getum haft áhrif á dvelja.

Ef okkur líkar ekki við það sem þar er að finna höfum við vald til að reyna að breyta því.


Hringirnir sem taka við eru utan okkar áhrifasviðs. Við getum rembst eins og rjúpan við staurinn, orðið pirruð og jafnvel flækt eigin brækur, en það sem liggur utan áhrifasvæðis okkar breytist ekki.

Í þannig tilvikum virka einföldu lausnirnar best. Við öndum – en það er hægt að anda með ýmsum hætti.


Stress og neikvæðni breyta önduninni og ómeðvitað förum við að halda niðri í okkur andanum og jafnvel anda í rykkjum.

Þegar átt er við flækjubrók er því best að anda að sér í gegnum nefið og telja upp að fimm, bíða í fimm sekúndur og anda þá rólega frá um leið og talið er upp að sjö. Sem sagt.
Anda inn. Anda út. Anda inn. Anda út. Anda inn. Og svo framvegis, stundum að því er virðist að eilífu.


Góðar stundir.