Stórfelldar brotalamir eru í umgjörð sjókvíaeldis hér á landi. Þetta leiðir úttekt Ríkisendurskoðunar skýrt í ljós.

„Stjórnsýsla og eftirlit með sjó­kvía­eldi hafa reynst veikburða og brotakennd og vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar,“ eru upphafsorð niðurstöðukafla Ríkisendurskoðunar sem gefa tóninn fyrir mat stofnunarinnar á viðfangsefninu.

Af nógu er að taka er kemur að agnúum, ekki síst varðandi lagaumgjörð og eftirlit með þessum umdeilda iðnaði. Lagabreytingum sem áttu „að stuðla að vexti og viðgangi greinarinnar í sátt“ við samfélagið og umhverfið hafi ekki verið fylgt eftir með eflingu stjórnsýslu og eftirlits.

Þá hafi hvorki skapast aukin sátt um greinina né hafi eldissvæðum eða heimildum til að nýta þann fisk sem talið sé óhætt að ala á tilteknum svæðum verið úthlutað með útboði, bendir Ríkisendurskoðun á. Reyndar séu hvorki hagsmunaaðilar, ráðuneyti né stofnanir sátt við stöðu mála.

Það er sem sagt allt í tómu rugli. Kemur það naumast nokkrum manni á óvart. Og lýsingar Ríkisendurskoðunar verða svartari.

„Samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum sem vinna gegn því að auðlindin skili hámarks ávinningi fyrir ríkissjóð hefur fest sig í sessi án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda,“ heldur Ríkisendurskoðun áfram að draga upp hina dökku mynd. Verðmætri aðstöðu og réttindum hafi verið úthlutað til langs tíma án endurgjalds. „Dæmi eru um að uppbygging sjókvíaeldis skarist á við aðra mikilvæga nýtingu strandsvæða, svo sem siglingaleiðir, helgunarsvæði fjarskipta- og raforkustrengja og við hvíta ljósgeira siglingavita,“ segir áfram.

Fiskeldisfyrirtækin fyrir sitt leyti eru ekki ánægð með rekstrarumhverfið, ekki síst ferlið í kring um margvísleg leyfi sem þurfi að afla fyrir starfseminni. Það sé bæði flókið og tímafrekt og þurfi að verða einfaldara og skilvirkara. Lagabreytingar fyrir níu árum sem hafi átt að tryggja einmitt það hafi litlu breytt. Skipulagsstofnun segir hins vegar að fyrirtækin undirbúi umsóknir sínar ekki nógu vel.

„Athygli vekur að formlegt samstarf ráðuneyta umhverfis og matvæla er nánast ekkert þegar kemur að fiskeldi. Þannig hafa verið settar reglur um rekstrarleyfi sem skarast á við ákvæði um starfsleyfi og öfugt,“ kemur einnig fram í skýrslunni þar sem athugasemdirnar virðast enga enda ætla að taka.

Ábyrgðin á þessu ástandi hvílir vitanlega á löggjafanum og stjórnsýslunni. Ríkisendurskoðun hefur hringt dyrabjöllunni þar á bæ og nú er að sjá hvort einhver komi til dyra.