Eins og ungt fólk um og upp úr fertugu veit geisar nú faraldur. Hans verður einna helst vart á samfélagsmiðlum, þá einkum Facebook, enda sá nútímamiðill sem plús fjörutíu hópurinn stundar hvað ákafast.

Helstu einkenni sóttarinnar eru myndbirtingar með ungbörnum, sem væri ekki skrýtið ef ekki væri fyrir textann sem fylgir. „Lítill kútur kominn í fangið á afasín.“ „Lítil prinsessa fædd í gær, alveg eins og ammasín.“ Og svo mætti áfram telja.

Nú hef ég ekkert á móti því að Íslendingar fjölgi sér, enda erum við helst til fá og því ærið tilefni, svona heilt yfir. En ég á erfitt með að trúa því að fólk sem er nálægt mér í aldri sé allt í einu orðið afisinn og ammasín. Hversu snemma byrjuðu þau eiginlega að eignast börn?

Þar sem ég sit og horfi á það afrek sumarsins sem kemst einna næst þessari tilfinningu myndast þó tenging við öll heimsins ömmusín og afasín. Allir sem skipt hafa út eldhúsi vita að það jafnast fátt á við þá sársaukafullu fæðingu, sem oftar en ekki tekur marga mánuði og hvers fjárhagsáætlun má margfalda með pí.

Þar sem ég horfi ástúðlega í augu skáphurðanna, klappa eldavél drauma minna, strýk létt yfir borðplötur sem minna á silkimjúkar bollukinnar, tekst mér næstum að gleyma hinum líkamlega, andlega og fjárhagslega sársauka sem eldhús ömmusín og afasín færði. Ég mun þó ekki, þrátt fyrir fjölda áskorana, birta mynd af mér á samfélagsmiðlum með eldhúsið í fanginu. Enda bíð ég þess að ísskápurinn byrji að tala. Þá birti ég myndband.