Undanfarin misseri hefur orðrómur um hugsanlega lokun álversins í Straumsvík ágerst. Nú í vikunni komu fram upplýsingar sem benda mjög sterklega til þess að það sé ekki spurning um hvort, heldur hvenær, alþjóðlega stórfyrirtækið Rio Tinto lætur til skarar skríða og skrúfar niður framleiðsluna í Straumsvík. Þessar fréttir vekja víða gremju og reiði, enda setja þær í uppnám atvinnu nokkur hundruð starfsmanna álversins og fyrirtækja sem sinna ýmiss konar þjónustu við álverið.

Saga álversins í Straumsvík er merkileg fyrir Íslendinga því ákvörðunin um framkvæmdina markaði töluverð vatnaskil í íslensku samfélagi. Jafnvel þótt þeim fari mjög fjölgandi sem finnst hæpið að veðja á orkufrekan iðnað til framtíðar á Íslandi, þá má ekki gleyma því að á sínum tíma þá má segja að uppbygging álversins í Straumsvík hafi markað innreið Íslands inn í nútímann. Íslendingar öðluðust gríðarlega verðmæta þekkingu í verkfræði í tengslum við uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi, og hefur sú þekking skilað sér með ýmsum hætti út í atvinnulífið og gert Ísland samkeppnishæfara í alþjóðlegu tilliti. Sama hvaða skoðanir fólk hefur á áframhaldandi uppbyggingu slíks iðnaðar á Íslandi, er ósanngjarnt að finna álverunum allt til foráttu. Það er hins vegar meira en líklegt að tími þeirra hér á Íslandi sé að verða liðinn, ef hann er það ekki nú þegar.

Hagkvæmni eða meðgjöf

Ákvarðanir um uppbyggingu álvers á Íslandi hljóta að hafa byggst á þeirri forsendu að það verið hagkvæmt. Íslensk stjórnvöld töldu sig geta boðið lágt verð fyrir raforkuna og hér var hægt að ráða fólk í vinnu á nokkuð hagstæðum kjörum. Nú er margt breytt og hafa flestar af þeim breytingum líklega dregið úr hagkvæmni þess að byggja og reka álver á Íslandi.

Orkuverð á Íslandi hefur hækkað en er þó enn líklega mun hagstæðara en víðast hvar annars staðar í okkur heimshluta. Þessi hækkun orkuverðs endurspeglar að einhverju leyti aukinn skilning á því að orkuframleiðslan sjálf krefst fórna á bæði verðmætri og dýrmætri náttúru. Ísland ársins 2020 er líka ólíkt Íslandi fyrir hálfri öld að því leyti að nú erum við land þar sem starfsfólk er ekki lengur ódýrt í alþjóðlegu samhengi. Álfyrirtækin borga reyndar ekki lág laun, en þó virðist sem launakostnaður starfsmanna skipti einhverju máli í þeirri ákvörðun að stefna að lokun álversins á Íslandi. En hvort sem launatékkarnir eru háir eða lágir þá er vinnan í álverunum erfið og hættuleg, og eflaust ekki eins aðlaðandi í velmegunarsamfélagi nútímans eins og hún var fyrir nokkrum áratugum.

Semagt—þessir tveir þættir, orkuverð og vinnumarkaður á Íslandi, virðast draga verulega úr kostum þess að starfrækja svokallaðan orkufrekan iðnað á Íslandi. Mjög ósennilegt er að breyting verði á þessari þróun á næstu árum og áratugum. Það væri að minnsta kosti ekki líklega til marks um eftirsóknarverða þróun á Íslandi ef við vildum ólm virkja meira og stærra til að selja orku til alþjóðlegra risafyrirtækja sem vilja helst af öllu borga sem minnst fyrir bæði vatnsaflið og mannaflið.

Framsýni fortíðar

Ákvörðunin um að byggja álverið í Straumsvík og Búrfellsvirkjun gat á sínum tíma talist býsna framsýn. Með framkvæmdunum var fleiri stórum stoðum rennt undir íslenska hagkerfið á tímum þegar það var enn mjög einhæft. En framtíðin er auðvitað erfið að því leyti að hún hefur tilhneigingu til þess að breytast hratt og er varla orðin að veruleika fyrr en hún er orðin að fortíð og jafnvel forneskju. Þeir sem í gegnum tíðina hafa barist fyrir sinni framtíð, eiga á hættu að finna sig skyndilega öfugu megin við vatnaskil tímans, og í stað þess að greiða farveginn fyrir náttúrulegri framvindu og þróun, þá upphefjast slagsmál gegn straumnum, sem vill leita í allt aðrar og nýjar áttir.

Þegar starfsemi hættir að vera hagkvæm á viðskiptalegum forsendum eru valkostirnir nefnilega í raun aðeins tveir. Annars vegar að horfast í augu við að draga muni úr slíkri starfsemi en hins vegar að leita leiða til þess að niðurgreiða starsfemina, og þá líklega með því að ganga á opinbert fé eða ryðja öðrum tækifærum í íslensku atvinnulífi úr vegi.

Hagkvæm listaspíra

Í sömu viku og þessar fréttir berast af álverinu í Straumsvík hlotnaðist Íslendingi sá heiður að taka á móti Óskarsverðlaunastyttu fyrir bestu kvikmyndatónlistina. Uppskera Hildar Guðnadóttur er auðvitað orðin ævintýraleg, en undirstrikar að það sé nánast samdóma álit þeirra sem til þekkja að hún sé um þessar mundir ekki bara samkeppnishæf á sínu sviði. Hún er best í heimi.

Verðlaunin eru bara toppurinn á ísjaka. Afreksfólk á sviði listrænnar sköpunar þarf ekki bara að geta staðið undir væntingum þegar því er treyst fyrir stórvirkjum (eins og tónlist í tugmilljarða Hollywood framleiðslu). Listafólk eins og Hildur þarf að sýna sig og sanna trekk í trekk áður en það einu sinni kemst í aðstöðu til þess að keppa um öll glæsilegu verðlaunin. Á bak við slíkt eru ekki bara hæfileikar, sjálfsagi og sjálfstraust; heldur kunnátta og þekking á ýmsum sviðum, sem byggist ekki bara upp hjá einstaklingnum á verðlaunapallinum, heldur stórum hópi samferðarfólks. Og það vantar ekki að í kringum listræna sköpun sé mikill iðnaður, reyndar einn sá stærsti í heimi.

Ok. Hvað svo?

Hvað er maðurinn að gefa í skyn? Heldur hann að við getum bara lokað öllum álverum og byrjað að spila á úkulele og tilbiðja bráðnaða jökla? Nei. Ekki beint, en samt aðeins.

Að sjálfsögðu erum við ekki öll að fara að skrifa kvikmyndatónlist í alþjóðlegar stórmyndir. En maður þarf ekki að hafa séð margar kvikmyndir, horft á marga sjónvarpsþætti eða spilað marga tölvuleiki til þess að sjá að á bak við alla vel heppnaða sköpun á afþreyingarefni er gríðarlegur fjöldi starfsmanna. Prófið bara að telja saman fjölda þeirra nafna sem rennur yfir skjáinn i lok teiknimyndar. Og það virðist sums staðar hafa tekist að byggja upp dágóða undirstöðu atvinnulífs með lítið annað en hugvitsemina að vopni—bjó ekki eitthvað fleira fólk í Los Angeles en á Íslandi síðast þegar var talið? Og hafði fólk það ekki að jafnaði bærilegt á þeim slóðum?

Það eru engar gleðifréttir ef álverið í Straumsvík lokar. Það væri hins vegar ekki viturlegt að fara út í miklar aðgerðir til þess að reyna að snúa slíkri ákvörðun við. Sú breyting, að rekstur álvers á Íslandi sé ekki lengur hagkvæm, er ekki til marks um að Ísland standi verr að vígi en áður—heldur einmitt hið þveröfuga. Sem betur fer bendir margt til þess að Íslendingar séu samkeppnishæfir á fjölmörgum öðrum sviðum, og ef rétt er haldið á málum þá getur í kringum slíkan orkusparneytinn iðnað orðið til fjöldinn allur af frábærum og spennandi störfum fyrir komandi kynslóðir.