Í síðustu viku var greint frá því að tilkynningum um heimilisofbeldi hefði fjölgað um tólf prósent og nauðgunum hefði fjölgað um 26 prósent.

Á fyrstu níu mánuðum ársins bárust lögreglu 195 tilkynningar um nauðgun. Það eru 22 nauðganir í hverjum mánuði. Að sögn framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins hafa nú þegar 140 konur komið til dvalar í húsinu á þessu ári. Árlegt meðaltal er um 130 konur.

Fyrstu viðbrögð við svona fréttum eru kannski þau að hugsa að samfélagið okkar sé á leið til verri vegar en við nánari skoðun má mögulega gera ráð fyrir að um jákvæða breytingu sé að ræða.

Það hefur alltaf verið ofbeldi. Og yfirleitt alveg nóg af því. Það sem hefur breyst er að fólk er hvatt til að ræða það og tilkynna það. Þolendum bjóðast nú ýmsar leiðir til að tilkynna það og eru vonandi að gera það í auknum mæli.

Meðan á heimsfaraldrinum stóð fannst mörgum kósí að vera meira heima með fjölskyldunni og fögnuðu samverunni. En um þetta voru ekki allir sammála því fyrir suma er meiri samvera á heimilinu þeirra mesta martröð. Þetta vissu sérfræðingar og einbeittu sér að því að koma þeim skilaboðum áleiðis. Þannig jókst meðvitund samfélagsins og samþykki þess á þeim vanda sem ofbeldi er.

Mögulega erum við nú að upplifa uppskeru þessarar auknu meðvitundar og samþykkis í fjölgun tilkynninga. Það er erfitt að vita, en það má vona það.

Nefnd á vegum Evrópuráðsins benti þó á í síðasta mánuði að á sama tíma og tilkynningum um ofbeldi fjölgar á Íslandi þá fjölgar ekki tilfellum þar sem úrræði, sem þolendum eiga að standa til boða, eru notuð, eins og brottvísun ofbeldismanns af heimili og nálgunarbann.

Á árinu hefur aðeins verið gefið út 91 nálgunarbann á sama tíma og lögreglu hafa borist hátt í tvö þúsund tilkynningar um ofbeldi. Þarna er alvarlegt ósamræmi og því þarf að bregðast við.

Framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins segir þolendur heimilisofbeldis ekki sækja um nálgunarbann bæði því þau óttast að uppfylla ekki skilyrðin sem gilda fyrir útgáfu þess og af því að þeim finnst því ekki fylgt eftir. Það er miður.

Ofbeldi ætti aldrei að líðast og þegar þolendum er sagt að það sé best fyrir þau að tilkynna ofbeldið verða þau að vita að tilkynningunum verði tekið alvarlega og að brugðist verði við þeim.