Samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International er einangrunarvist notuð óhóflega hér á landi meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Á ellefu ára tímabili voru 825 í einangrun og af þeim voru tólf prósent, eða 99, í einangrun í meira en tvær vikur. Það er langur tími til að vera einn í klefa.
Íslenskur karlmaður sem vistaður var í einangrun í fyrra í sautján daga sagði það mannskemmandi að vera í einangrun. Hann sagðist ekki geta séð að einangrunin hefði haft úrslitaáhrif á það hvort hann myndi eða gæti spillt rannsóknarhagsmunum. Á Íslandi er það einmitt helsta ástæða þess að einstaklingar eru úrskurðaðir í einangrun. Til að gefa lögreglu tíma til að rannsaka mál án þess að sakborningur, sá grunaði, geti haft áhrif á rannsókn málsins.
Það er skiljanlegt, en Amnesty kallar þó eftir því í skýrslunni að það sé tekið til skoðunar á Íslandi hvort einangrunarvist sé alltaf nauðsynleg og við hvaða aðstæður þessu úrræði er beitt. Því það kemur líka fram í skýrslunni að vissulega sé oft um að ræða rannsókn á mjög alvarlegum glæpum en einnig sé fólk vistað í einangrun vegna smærri mála. Það er miður og það er alvarlegt því ef við ætlum að beita þessu úrræði hljótum við að vilja vera með skýr mörk um það við hvaða aðstæður er gripið til þessa úrræðis.
Þó svo að einangrunarvistin sjálf sé ekki flokkuð sem hrein og bein pynting segir lögmaður Amnesty að hún geti flokkast sem „önnur grimmileg, ómannleg eða vanvirðandi meðferð eða refsing“.
Óhófleg notkun á slíku hlýtur að vera eitthvað sem við viljum bæta úr en gallinn í skýrslu Amnesty er samt sá að engar aðrar lausnir eru lagðar til. Heldur er það lagt í hendur yfirvalda að finna lausnir. Það er brýnt að það sé gert og það sé þá á öllum stigum máls kannað hvaða úrbætur er hægt að gera.
Það sem manni finnst þó kannski alvarlegast við það sem kemur þarna fram er það að bæði börn og fatlað fólk eru ekki undanskilin slíkri vist. Samkvæmt skýrslunni voru tíu einstaklingar á aldrinum fimmtán til sautján ára í einangrunarvist á því ellefu ára tímabili sem skýrslan tekur til.
Þegar Amnesty leitaðist svo eftir því að fá upplýsingar um hversu margir voru með fötlun eða glímdu við andlega veikindi var fátt um svör. Upplýsingarnar ekki skráðar og ekki til. Það er kannski ekkert sem kemur á óvart en manni þykir það mjög miður þegar áhrif einangrunarvistarinnar, samkvæmt rannsóknum, eru mjög alvarlegar á andlega heilsu.
Málið er mjög alvarlegt og það er rík ástæða til þess að taka það sem kemur fram í skýrslunni alvarlega.