Sæl og blessuð,

Fyrir nokkrum árum vann ég að úttekt á stefnu allra framboðslista fyrir alþingiskosningar. Þetta mat vann ég fyrir tvennar alþingiskosningar. Verkefni mitt var að kortleggja raunverulega stefnu flokkanna í málefnum hælisleitenda, hvort framboðið hefði sett fram skýra stefnu með flokkssamþykktum á prenti. Viðmiðun mín var að stefna þessi kæmi skýrt fram á vefsvæði framboðsins og væri þar með hægt að fara fram á efndir á kosningaloforðum.

Ég geri mér grein fyrir að "kosningaloforð", eru fyrirbæri sem jafnan koma til tals í tengslum við kjaramál af einhverju tagi. Einnig að eitthvað eins og opinberri stefnu pólitísks framboðs í málefnum hælisleitenda er sjaldnast haldið til haga af kjósendum.

En nú er komið að vissum reikningsskilum Katrín. Þú sendir mér samþykktir Vinstri Hreyfingarinnar Græns Framboðs, þar sem birtist umbótastefna ykkar framboðs á þessu sviði sem var til hreinnar fyrirmyndar. Til stóð að hreinsa til í málefnum flóttafólks og hælisleitenda, taka við stórauknum fjölda flóttafólks og hælisleitenda o.s.frv.

Til að gera langa sögu stutta þá hefur ekkert af þessu orðið að veruleika í stjórnartíð þinni Katrín og verð ég að segja að það kemur mér verulega á óvart. Ef ég man rétt þá gaf ég framboði þínu fullt hús stiga í málefnum flóttafólks. Ég hafði einfaldlega ekkert annað að miða við annað en þau gögn og svör sem þú sendir mér.

Ég ætla að ræða við þig um þá stöðu sem snýr að þér sem forsætisráðherra í þessum efnum.

Þegar að skipunarreglur fyrir Kærunefnd Útlendingamála eru skoðaðar, þá kemur í ljós að niðurstöður nefndarinnar lúta fullkomnu valdi ráðherra, þannig er einfaldlega fyrirkomulag nefndarinnar og mæli ég með að fólk fletti þeim upp. Sam sagt Katrín, þá gerist ekkert í Kærunefndinni sem ráðherra hugnast ekki.

Niðurstaða nefndarinnar er því pólitísk og endurspeglar fyrst og fremst pólitískan vilja á alþingi.

Dyflinarreglugerðin sem forsvarsmönnum Útlendingastofnunar verður svo tíðrætt um, er ætlað að vernda flóttafólk. En í hvert skipti sem forsvarsmenn útlendingamála svara fyrir enn eina óforsvaranlega brottvísunina, þá er vísað í reglugerðina. Staðgengill forstjóra ÚTL er Þorsteinn Gunnarsson og fyrir þeim er ekki þekkja til málaflokksins, má vera að tilsvör hans séu bara nokkuð sannfærandi.

En Útlendingastofnun, augljóslega samkvæmt vilja ráðherra og þingmeirihlutans, brýtur Dyflinarreglugerðina í stað þess að starfa samkvæmt þeim skyldum sem regluverkið leggur á herðar stjórnvalda í þeim tilgangi að vernda flóttafólk.

Í umboði ríkisstjórnar þinnar Katrín er Flóttamannasamningur UN, Barnasáttmálinn og Dyflinarreglugerðin þverbrotin og leyfi ég mér að segja, fótum troðin.

Það er staðreynd að þegjandi samkomulag hefur ríkt um þennan málaflokk meðal allra flokka á alþingi í gegn um tíðina. Það er því langt í frá að Vinstri Hreyfingin Grænt Framboð geti skreytt sig með þessum málaflokki í aðdraganda kosninga, vísað í metnaðarfullar samþykktir flokksins, en gleymt síðan öllu eftir kosningar.

Ég vil spyrja þig Katrín hvort þú teljir þér til setunar boðið, ef þú ætlar að halda áfram að lúta stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum flóttafólks, því í því felast svik við kjósendur.

Það er að sjálfsögðu verið að brjóta brottvísunarákvæði Dyflinarreglugerðarinnar með kerfisbundnum hætti víðar en hér á landi, alvarlegast er það ástand í ólögmætum flóttamannasamningi ESB við Tyrkland.

En næst, kæra Katrín, þegar einhver úr stjórnarmeirihlutanum talar um að Íslendingar eigi að vera í forystu, oftar en ekki á sviði mannréttinda. Þá vil ég að þú minnist orða minna og þeirra loforða sem þú gafst mér og ég fjallaði um bæði á prenti og í útvarpi á sínum tíma í aðdraganda kosninga. Þar sagði ég að stefna Vinstri Grænna í málefnum flóttafólks væri til fyrirmyndar og fengjuð þið því fullt hús. Ég varaði aftur á móti við þeirri stefnu og þeirri frammistöðu sem sagan hefur sýnt í tengslum við Sjálfstæðisflokkinn.

Nú þegar til stendur að vísa á brott ungum Trans dreng yfir í afar ótryggar aðstæður sem Nota bene er skýlaust brot á Dyflinarreglunni, Flóttamannasamningi Sameinuðu Þjóðanna og sjálfum Barnasáttmálanum, þá vona ég að þú hugleiðir fyrst þessi orð mín sem ég sendi þér í mestu vinsemd.

Höfundur er tónlistarkennari