Ég hóf grunnskólagöngu rétt upp úr aldamótum. Á þeim tíma var herferðin gegn einelti í fullum gangi. Umræðan hefur komið upp af og til í gegnum árin, eins og flestir muna. Þessi herferð var hins vegar svo rækilega innprentuð í mína kynslóð að ég held að flest okkar geti séð Eineltishringinn fyrir sér ef þau loka augunum.

Í hverri einustu kennslustofu sem ég sat í meðan á grunnskólagöngu minni stóð var slíkt plakat, Eineltishringurinn, einhvers staðar uppi á vegg. Fyrir þau ykkar sem sátuð ekki með þetta plakat fyrir augunum í fleiri ár þá er það einhvern veginn svona: Það er blátt og sýnir spýtukarla með ýmis hlutverk. Fyrir miðju er hvíti kallinn, þolandinn, sá sem verður fyrir eineltinu. Lengst til hægri er svo græni kallinn, verndarinn, en hann stoppar eineltið og hjálpar þolandanum, næst er svo ljósgræni kallinn, hann er líka á móti eineltinu en kann ekki að stoppa það. Þegar lengra er svo haldið koma gulir og appelsínugulir kallar í ýmsum litbrigðum sem eiga það þó allir sameiginlegt að standa hjá og/eða styðja eineltið sem á sér stað, þ. á m. meðhlaupari, handlangari, stuðningsaðili. Lengst til vinstri er svo gerandinn, sá sem stendur fyrir og á hugmyndina að eineltinu. Hinn eiginlegi vondi kall, eða hvað?

Sem barn átti ég í erfiðleikum með að skilja af hverju það væru bara tveir grænir kallar en svona margir gulir og appelsínugulir, helmingi fleiri ef sá grái er talinn vera í hvorugu liði. Ég ræddi þetta við kennarann minn, ef til vill í 4. eða 5. bekk, og hún útskýrði fyrir mér að ef maður gerði ekki neitt, sæti bara hjá og hlægi jafnvel með, þá væri maður að gera illt verra fyrir þolandann. Ég átti erfitt með að trúa því að málin sneru svona þar sem ég trúði því enn að það hlyti nú að vera mikið fleira gott, grænt fólk í heiminum en slæmt, appelsínugult.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar í heilabúi mínu. Ég hef lokið grunnskólagöngu minni og meira til. Þegar ég horfi á Eineltishringinn þessa dagana þá sé ég hvað kennarinn minn var að meina. Málin snúa svona, og ef maður stendur ekki aktíft upp gegn misrétti þá er maður partur af vandamálinu, líkt og aktífistar minnar kynslóðar geta flestir verið sammála um.

Ég gerði ráð fyrir því að allir hefðu farið í gegnum svipað mótunarferli hvað varðar þetta málefni. Eineltismál hafa verið til umræðu af og til seinustu áratugina þótt krakkar hafi ekki getað mótað hugmyndir sínar út frá grafískri hönnun eins og í dag. Þess vegna kom niðurstaða siðanefndar Alþingis mér svo rækilega á óvart núna um daginn. Klaustursmálið, sem hefur drattast áfram í fjölmiðlum og hjörtum þjóðarinnar frá því að fyrstu menn fóru að setja upp jólaskreytingar í vetur, hefur nú loks náð endastöð sinni í umfjöllun innan veggja Alþingis. Niðurstaðan var sú að aðeins tveir þeirra sex aðila sem sátu til borðs og töluðu illa um samstarfsfólk sitt, jafnt sem ókunnuga, eru fundnir sekir um það að brjóta siðareglur Alþingis. Þrátt fyrir að þetta sé í raun einfaldasta birtingarmynd eineltis, baktal í hópi þegar málsaðilar eru ekki viðstaddir, þá virðist vera að appelsínugulu karlarnir í þessu samhengi séu lausir allra mála. Ef svona mál kæmi inn á borð skólastjórna í flestum grunnskólum landsins væri eineltisáætluninni einfaldlega hrint af stað og rætt væri við gerendur og foreldra, ef til þess kæmi. En það liggur víst ekki eins skýrt fyrir hvað skuli gera þegar gerendur eru hátt settir alþingismenn og í ofanálag fólk sem á peninga og hefur völd í samfélaginu. Þá er þetta pólitískt mál en ekki eineltismál.

Skilaboðin sem við, unga kynslóðin, fáum frá þessu máli eru einfaldlega þau að Eineltishringurinn hættir að vera til því hærra sem þú vinnur þig upp í samfélaginu. Þá eru bara hvítir karlar, rauðir karlar (sem geta varla verið svona flottir alþingismenn, er það?) og þeir sem einfaldlega koma málinu ekki við.

Samkvæmt siðareglum Alþingis er í lagi að vera gulur karl, svo lengi sem þú ert ekki rauður. Þannig er munurinn á siðareglum Alþingis og siðareglum skólabarna sá að á leikvellinum ertu ábyrgur gjörða þinna jafnvel þótt þú sitjir hjá en ef þú ert alþingismaður þá er allt í lagi að vera appelsínugulur kall svo lengi sem þú ert ekki rauður.

Ef þú ert grunnskólabarn og situr hjá, jafnvel hlærð, þegar einhver gerir grín að Jóni með gleraugun þá er það þér að kenna, að minnsta kosti að hluta til, þegar hann fer að gráta. En ef þú ert alþingismaður og situr hjá, jafnvel hlærð, þegar einhver gerir grín að fötluðum, að hinsegin fólki, að konum, þá er það ekki þér að kenna þegar heilu minnihlutahóparnir fara að gráta heima hjá sér á kvöldin. Nei, því þau eru bara vælukjóar, ekki nógu hot, klikkaðar kuntur eða apakettir.