Fjöl­mörg frum­vörp urðu að lögum í upp­hafi vikunnar við þing­lok á Al­þingi. Eitt þeirra var frum­varp mitt um lofts­lags­mál. Sam­þykkt þess skiptir höfuð­máli fyrir okkur Ís­lendinga því þar með hefur Al­þingi stað­fest al­þjóð­legar skuld­bindingar okkar sam­kvæmt Parísar­sam­komu­laginu.

Með lögunum hefur Al­þingi einnig lög­fest sam­starf Ís­lands, Noregs og Evrópu­sam­bandsins um að ná sam­eigin­lega mark­miðum sínum gagn­vart Parísar­sam­komu­laginu. Ég tel þetta sam­starf mikil­vægt til að tryggja að al­menningur og ís­lenskt at­vinnu­líf búi við sama reglu­verk í lofts­lags­málum og f lest önnur Evrópu­ríki og geti átt í góðu sam­starfi um lofts­lags­mál.

Nýju lögin móta um­gjörð í kringum skuld­bindingar Ís­lands til ársins 2030. Þannig fjalla þau um skuld­bindingar okkar vegna losunar gróður­húsa­loft­tegunda í geirum eins og sam­göngum, sjávar­út­vegi, land­búnaði, með­ferð úr­gangs o.fl., það sem kallað hefur verið skuld­bindingar á beinni á­byrgð Ís­lands. Einnig kveða lögin á um hvernig tekið verði á losun frá stór­iðju og flugi, og vegna losunar og kol­efnis­bindingar vegna land­notkunar.

Mis­munandi er hve mikill sam­dráttur í losun kemur í hlut hvers ríkis í sam­komu­laginu. T.d. á Grikk­land að draga úr losun um 16%, Dan­mörk um 39% og Ís­land um 29%. Sam­ræmdar for­sendur þar sem m.a. var horft til þjóðar­fram­leiðslu og kostnaðar­hag­kvæmni að­gerða við að draga úr losun liggja til grund­vallar þessari skiptingu. Hátt hlut­fall endur­nýjan­legrar orku hér­lendis bæði til raf­orku­fram­leiðslu og hús­hitunar hafði til dæmis á­hrif á hlut­deild Ís­lands. Það þýðir hins vegar ekki að Ís­land geti ekki sett sér enn metnaðar­fyllri mark­mið, sem er ein­mitt það sem nú­verandi ríkis­stjórn hefur gert sem stefnir að 40% sam­drætti árið 2030. Í upp­hafi síðustu viku kynnti ríkis­stjórnin nýja út­gáfu að­gerða­á­ætlunar í lofts­lags­málum. Hún sýnir hvernig við munum standa við þessar al­þjóð­legu skuld­bindingar okkar. Sam­kvæmt á­ætluninni mun sam­dráttur í losun gróður­húsa­loft­tegunda árið 2030 verða að minnsta kosti 35% sem er tals­vert meira en okkar hlutur þarf að vera. Auk þess eru að­gerðir sem enn eru í mótun og ekki var unnt að meta taldar geta skilað 5-11%, eða sam­tals 40-46% sam­drætti. Því vil ég meina að blaðinu hafi verið snúið við í lofts­lags­málum á Ís­landi.

Þessi niður­staða Al­þingis er stórt skref í lofts­lags­málum og ég fagna henni inni­lega. Nú­verandi ríkis­stjórn setti lofts­lags­mál í önd­vegi strax í stjórnar­sátt­mála og mun halda ó­trauð á­fram að tryggja þau um­skipti sem nauð­syn­leg eru í sam­fé­laginu til að sporna gegn á­hrifum lofts­lags­breytinga.