Íbúauppbyggingin í Garðabæ er þó nokkur um þessar mundir þar sem annars vegar er verið að þétta byggð sem fyrir er og hins vegar uppbygging á nýjum svæðum. Að mörgu er að hyggja við slíka uppbyggingu og eru almenningssamgöngur eitt af forgansmálum þegar kemur að uppbyggingu. Eða svo skyldi ætla.

Tillögu minni í bæjarstjórn um bættar almenningssamgöngur í Urriðaholti var vísað áfram inn í fjárhagsáætlunargerð sem framundan er. Almenningssamgöngur í Garðabæ eru fjarri því að vera forgangsmál meirihlutans þrátt fyrir að vera gríðarlega mikivæg þjónusta og meirhlutinn telji sér sérstaklega til tekna að veita íbúum afburða þjónustu.

Í dag gengur til að mynda enginn strætó í og úr hverfinu sjálfu né að Urriðaholtsskóla.

Ákvörðun um búsetu miðast m.a. við aðgengi að nærþjónustu. Barnafjölskyldur horfa sérstaklega til skólans í hverfinu og um leið hvernig almenningssamgöngum er háttað. Urriðaholtið er í mikilli uppbyggingu. Gert er ráð fyrir að barnafjölskyldur setjist þar að og því mikilvægt að almenningssamgöngur séu í samræmi við þarfir þess hóps. Uppbygging kostar og því er mikilvægt að íbúafjölgun sé jöfn og þétt.

Uppbygging hverfisins er hægari en gert var ráð fyrir, en það ætti þó ekki að koma á óvart. Nær alla þjónustu þarf að sækja út fyrir hverfið og yfir stofnbrautir með mikla og hraða umferð. Við slíkar aðstæður eru almenningssamgöngur öryggismál. Þegar þær bjóðast ekki þarf engan að undra þótt hægi á flutningi fólks inn í hverfið. Börn og ungmenni fara ekki frjáls leiða sinna til að sækja íþróttir og tómstundir eða annað sem tengist þeirra lífi dags daglega þar sem almenningssamgöngur vantar.

Hugsum út fyrir rammann og leitum leiða með hag íbúa fyrir brjósti. Á meðan hverfi eru að vaxa má vel hugsa sér að fara sértækar leiðir í slíkri þjónustu. Ekki er hagkvæmt að hafa strætó um hverfið ef farþegafjöldinn nær ekki því lágmarki sem þarf til að slíkt beri sig. En allt hefur áhrif og sannarlega er það þannig að á meðan enginn er strætóinn þá skapast heldur engin hefð fyrir því að taka strætó. Frístundabíll er virkur í íþróttir og tómstundir en einungis aðra leiðina og einungis beint eftir skólalok Urriðaholtsskóla.

Ástandið er mjög bagalegt og þörf á úrbótum fyrr en seinna. Dæmi eru um fjölskyldur sem hafa hætt við flutninga í Urriðaholt vegna þessa og önnur dæmi um fjölskyldur sem hafa gefist upp og ætla að hverfa þaðan á brott vegna þjónustuskorts.

Við í Garðabæjarlistanum trúum því að tillagan fái brautargengi. Það kostar að hafa hverfi hálf köruð og íbúar eiga heimtingu á að stjórn sveitarfélagsins fylgi uppbyggingu eftir með því að bæta við þjónustu sína jafnt og þétt. Urriðaholtið er þannig í sveit sett að almenningssamgöngur skipta augljóslega mjög miklu máli. Það hefur blasað við allt frá því að hverfið var skipulagt á þessum stað. Nú er mál að styðja við núverandi íbúa Urriðaholts og hvetja um leið aðra til að flytja í þetta vaxandi hverfi, með traustum og öruggum almenningssamgöngum.

Höfundur er oddviti og bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans í Garðabæ