Tíminn líður hratt á gervihnattaöld,“ var sungið forðum í Gleðibankanum. Þessi hraðferð tímans er sígilt umræðuefni hjá eldra fólki. Börn segja að tíminn líði hægt en eftir því sem fólk eldist verður tíminn hraðskreiðari. Mörgum finnst eins og alltaf sé fimmtudagur og helgarnar renni saman í eitt.

Ég var í samkvæmi á dögunum þar sem talið barst að tölvubyltingu og tengslaleysi samtímans. „Ég er feginn að vera á leiðinni út úr þessu öllu,“ sagði einn jafnaldri minn og brosti angurvært. Margir aldraðir berjast við tilvistarkreppu í síbreytilegum heimi.

Mestu skiptir að finna sér markmið í lífinu á eigin forsendum. Eiginlegu uppeldishlutverki er löngu lokið svo að börn og barnabörn eiga enga heimtingu á fjármunum eða tíma gamla fólksins. Nú er kominn tími til að láta óskir og langanir rætast í samræmi við fjárhag og heilsu án tillits til afskiptasemi umheimsins.

Egill afi minn Skallagrímsson lét engan segja sér fyrir verkum. Hann refsaði börnum sínum fyrir frekju og stjórnsemi með því að gera þau öll arflaus. Ellilífeyrisþeginn Sighvatur frændi minn Sturluson féll á Örlygsstöðum 1238. Hann fylgdi Sturlu syni sínum í tilgangslausu valdabrölti hans og lét lífið fyrir hann og óraunhæfar væntingar hans.

Kannski hefði hann betur fylgt eigin sannfæringu og ekki látið sjá sig á Örlygsstöðum. Í staðinn hefði hann getað spilað golf á Akureyrarvelli eða dansað gömlu dansana í Sjallanum með Halldóru konu sinni.

Þá hefði hann allavega lifað og dáið á eigin forsendum og í samræmi við eigin langanir eins og Egill afi. Það er reyndar óskoraður réttur allra gamlingja.